Spurt og svarað

01. júní 2021

Brjóstaverkfall

Sælar ljósmæður og takk fyrir frábæran vef. Mig langaði að athuga með eitt en þannig er málið að barnið mitt er að verða árs gamalt núna eftir nokkra daga og hingað til hefur það verið algjört brjóstabarn. Hefur gengið vel frá upphafi og alltaverið tilbúið að drekka og beðið um. Það fór að fá mat um 6/7 mánaða aldur samhliða brjóstgjöfinni. En núna síðustu 2 daga vill það ekki sjá mjólkina eða drekka hjá mér :( eg reyni og reyni alltaf að bjóða því. Eftir nóttina, fyrir lúr, á kvöldin og það Vill ekki sjá það. Snýr höfðinu alltaf frá eða horfir á mig brosir og reynir að meiða mig, rifur í geirvörtuna, eða bítur mig svona laust og snýr sér frá. Það hefur hinsvegar drukkið hjá mér síðustu 2 nætur þegar það vaknar um miðja nótt og drukkið þá sig til svefns. Ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að tækla þetta. Mig langar svo að hafa það lengur á brjósti en fer auðvitað ekki að pína það. Hvað segjið þið? Er þetta borin von að halda þessu áfram. Eða er það bara einfaldlega að hætta rúmlega ársgamalt á brjósti. Þetta er svo yndislegur tími og mig langar virkilega ekki að hætta strax, er bara í hálfgerðri sorg :’’(

Sæl 
Þettta hljómar eins og barnið sé í brjóstaverkfalli. Þegar börn eru að hætta á brjósti sjálf hætta þau yfirleitt hægt og rólega en ekki skyndilega. Foreldrar nota þó oft þennan tíma til þess að hætta með barnið á brjósti séu þau tilbúin til þess.

Brjóstaverkfall er vel þekkt og getur tengst vissum þáttum, t.d. tanntöku eða óþægindum í munni, breytingu á bragði á mjólkinni, afleiðing af viðbrögðum móður ef barnið hefur bitið hana, aðskilnaður móður og barns, minni mjólkurframleiðsla o.fl. Oft getur verið erfitt að vita ástæðuna og það finnst ekki endilega skýring á brjóstaverkfallinu. 

Brjóstaverkfall stendur yfirleitt yfir í nokkra daga en getur staðið yfir í tvær vikur.  Oftast er hægt að komast yfir það og fá börnin til þess að vilja fara aftur á brjóst sé vilji til þess. 

Það sem þú gætir prófað að gera er að nýta tímann þegar barnið er þreytt á kvöldin og morgnanna til þess að gefa því að drekka. Reynt að bjóða því brjóstið á daginn eins og þú ert vön og séð hvort þetta gangi ekki yfir á nokkrum dögum. Ef barnið er ekki að drekka á daginn eins og það er vant, er gott fyrir þig að pumpa í staðin til þess að halda uppi mjólkurframleiðslunni. 
Eins og þú segir þá er ekki gott að pína barnið til þess að drekka ef það vill það ekki. Gefðu því smá tíma til þess að komast yfir þetta. 

Hér er ágætis síða með upplýsingum og tenglum um brjóstaverkfall o.fl. sem þú getur vonandi nýtt þér. 

Vonandi náið þið upp brjóstagjöfinni á ný og getið hætt þegar þið eruð tilbúin í það. 

Kær kveðja, Jóhanna María Friðriksdóttir, ljósmóðir

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.