Spurt og svarað

03. júní 2021

Brjóstagjöf og Phenergan

Góðan dag. Ég var að taka phenergan alla meðgönguna til að hjálpa við svefn og var að spá hvernig það færi í mjólkina. Hef ekki þurft að taka það eftir fæðingu en svefninn hefur versnað aftur og mér finnst ég þurfa 1-2 til að geta sofnað en eg finn ekkert um það hvort það berist í mjólkina og hafi áhrif á barnið.

Sæl 

Samkvæmt upplýsingum sem ég finn er ekki vitað hvort lyfið berist í brjóstamjólk. Phenergan er flokkað sem vægt sveflyf í flokki A m.t.t. áhrifa á fóstur þegar það er notað á meðgöngu. 

Yfirleitt er meiri flutningur á lyfjum yfir fylgju en yfir í brjóstagjöf og ætti því að vera í lagi fyrir þig að nota lyfið með brjóstagjöf.

Það sem þarf að hafa í huga er að svefnlyf með brjóstagjöf geta verið hættuleg þegar börnin eru enn að drekk á nóttunni. konur eiga það til að taka börnin uppí rúm til sín að drekka á nóttunni og sofna stundum út frá brjóstagjöf, eða taka börnin uppí á nóttunni til þess að þau sofi betur. 

Þegar annað hvort foreldri er á róandi lyfjum, svefnlyfjum eða öðru er ekki mælt með því að taka börn uppí á nóttunni, þar sem það eykur líkur á vöggudauða. Hafðu það því endilega í huga. 

Það er best fyrir þig að heyra í heimilislækninum þínum eða hjúkrunarfræðingi í heilsugæslunni ef svefnleysið heldur áfram að vera vandamál og þú þarft að halda áfram að taka svefnlyf. 

Gangi þér vel

Kær kveðja, Jóhanna María Friðriksdóttir, ljósmóðir

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.