Spurt og svarað

02. september 2021

Síðfyrirburi - frá pumpu að brjósti

Sælar - og takk fyrir frábæran vef! Ég á 9 vikna gamlan dreng sem fæddist mjög nettur á 36 viku. Í byrjun tók hann ekki brjóstið þannig að hann fékk strax pela. Ég kom þó framleiðslunni af stað og hef pumpað mig og svo gefið honum í pela frá því að mjólkin kom í brjóstin. Hann er því eingöngu að fá brjóstamjólk og mig langar gjarnan að halda því þannig. Markmiðið er samt að hætta að pumpa og koma honum alfarið á brjóstið. Í upphafi flestra gjafa yfir daginn byrja ég á að hafa hann á brjósti, en hann endist bara mjög stutt þar því annað hvort sofnar hann eða helst vakandi en er ekki að drekka af krafti. Hann drekkur þá ca. 10-25 ml sem er alltof lítið. Þá enda ég á að pumpa mig og gefa honum mjólkina í pela. Er nokkuð viss um að hann nái góðu taki á brjóstinu því hann sýgur vel í smá tíma. Mér finnst ég vera í kappi við tímann að koma honum á brjóstið því ég las hér á síðunni að eftir þriggja mánaða aldur sé erfiðara að ná mjólk úr brjóstunum með því að nota pumpu. Þá fer maðurinn minn líka aftur að vinna sem flækir hlutina þegar maður er bæði að pumpa og gefa brjóst auk þess að sinna fleiri börnum og heimili. Mig langar því að spyrja hvað ég geti gert til þess að koma honum alfarið á brjóstið? Eða get ég búist við því að hann taki allt í einu við sér og fari að drekka þar af krafti? Ég er nú þegar að hafa hann léttklæddan við brjóstið og beita öllum ráðum til þess að halda honum vakandi og við efnið. Þess má geta að ég á að baki tvær velheppnaðar brjóstagjafir. Var með elsta barnið á brjósti í 14 mánuði og mið barnið í 12 mánuði. (Maðurinn minn var víst líka latur á brjósti og mamma hans þurfti að pumpa sig í 3 mánuði og þá tók hann allt í einu brjóstið. Er að vona að minn taki líka allt í einu við sér). Með kveðju, B.

Sæl, það þarf alls ekki að vera að það sé erfiðara að ná mjólk úr brjóstunum eftir 3 mánaða aldur, framleiðslan stjórnast af eftirspurninni. En það sem hann þarf að gera er að æfa sig að sjúga brjóstið og ná upp þoli í heila brjóstagjöf. Þannig að endilega haltu áfram að bjóða honum brjóstið reglulega og reyna að halda honum við efnið. Ef hann notar snuð getur það hjálpað til á milli gjafa við að byggja upp sogþol. 

Til þess að fá sérhæfðari ráðgjöf geturðu sótt þér brjóstagjafaráðgjöf, sú ráðgjöf er þó ekki niðurgreidd af sjúkratryggingum eftir 2 vikna aldur barns.

Kær kveðja, Hafdís Guðnadóttir, ljósmóðir.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.