Góðan dag Nú mælir landlæknir með því að þeir sem hyggja á ferðalög m.a. til Bretlands eigi að fá bólusetningar boozt fyrir mænusótt vegna aukinna tilfella sjúkdómsins. Ég er að fara til Bretlands á næstunni, er þetta eitthvað sem ég þyrfti að hugsa út í ?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Landlæknir greinir frá aukningu á tilfellum á mænusótt og barnaveiki erlendis, sérstaklega í Bretlandi og Bandaríkjunum og ráðleggur því ferðafólki að bólusetja sig ef fyrri bólusetning er útrunninn (meira en 10 ár liðin frá bólusetningu) eða hefur ekki verið framkvæmd. Sjá má hér frá Landlækni.
Bóluefnið boostrix polio er bólusetning gegn mænusótt og barnaveiki (einnig kíghósta og stífkrampa). Ef þú ert á leiðinni til Bretlands í frí ráðlegg ég þér að heyra í ljósmóður í meðgönguvernd og athuga hvenær þú fékkst síðast bólusetningu gegn mænusótt.
Á hverri meðgöngu er ráðlagt að fá bólusetningu gegn kíghósta en sú bólusetning getur verndað nýfædda barnið þangað til að það fær bólusetningu við 3ja mánaða aldur. En sú bólusetning er gefin á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu, vanalega við 28 vikur meðgöngu. Þá er hægt að fá allar bólusetningarnar saman og fá bólusetningu gegn mænusótt einnig ef það vantar upp á hana. Gangi þér vel.
Bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.