Spurt og svarað

02. janúar 2023

Minnkuð brjóst, bumba og verkur neðst í baki

Góðan dag. Er gengin rúmlega 17 vikur en brjóstin mín hafa stækkað mikið á meðgöngunni. Finnst núna eins og þau hafi minnkað og orðin mjúk aftur. Finnst líka eins og kúlan mín sé orðin minni en hún var orðin. Fæ einnig stingandi verk hægra megin fyrir ofan rasskinnina ef ég beiti mér á einhvern ákveðinn hátt, verkurinn er s.s. ekki viðvarandi en virkilega sár þegar hann kemur. Vegna þessara einkenna hef ég áhyggjur af því hvort að allt sé í lagi með barnið.

Góða dag og takk fyrir fyrirspurnina.

Í upphafi meðgöngu rís hratt styrkur óléttuhormónsins, hCG, í líkamanum. Við það geta einkenni eins og ógleði, eymsli í brjóstum og almenn þreyta farið að gera vart við sig. Eftir fyrsta þriðjung meðgöngu lækkar styrkur þessa hórmóns í blóði og við það hjaðna óléttueinkennin og jafnvel hverfa. Þrátt fyrir að því fylgi ákveðinn léttir getur reynst erfitt fyrir þungaða einstaklinga að missa einkennin þar sem þetta er oft ákveðin staðfesting á þunguninni fyrir einstaklinga þar til hreyfingar fósturs fara að gera vart við sig.

Varðandi verkinn hægra megin fyrir ofan rasskinn er líklegt að það tengist stækkandi barni og legi og gætir þú þá verið að upplifa svonefnda togverki sem stafa af því að legböndin eru að lengjast. Einnig geta þetta verið grindarverkir sem verða af völdum hormónabreytinga og breyttri líkamsstöðu vegna þungunar. Hér getur þú lesið betur um stoðkerfisvandamál á meðgöngu, bæði einkenni og ráð. 

Óléttukúlan getur birst mismunandi m.a. eftir því hvernig barnið liggur í leginu og hvenær tíma dags það er metið. Ef þú hefur áhyggjur af vexti/líðan fósturs þá ráðlegg ég þér að hafa samband við þína ljósmóður í meðgönguvernd. Ljósmóðirin getur veitt þér upplýsingar og boðið þér aukahlustun á fósturhjartslætti. 

Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.