Fréttir

Fæðingarheimili Reykjavíkur

19.apríl 2022

Við fengum Emblu Ýr Guðmundsdóttur ljósmóður og einn stofnanda Fæðingarheimilisins til að kynna starfsemi þess. 

Hvað er Fæðingarheimili Reykjavíkur?

Fæðingarheimili Reykjavíkur er miðstöð fyrir konur. Staður þar sem þær geta fengið ráðgjöf varðandi getnaðarvarnir og ráðgjöf um breytingaskeiðið. Þegar þær eignast börnin sín þá geta þær komið í meðgönguvernd, átt börnin sín á Fæðingarheimilinu og svo fengið heimaþjónustu í sængurlegu. Öll þessi þjónusta er veitt af teymi ljósmæðra sem vinna náið saman – með það að markmiði að konur og fjölskyldur þeirra fái þá þjónustu sem hentar hverri fjölskyldu þar sem lögð er áhersla á upplýst val og virðingu.

Við sjáum einnig mikla þörf fyrir stað þar sem fjölskyldur geta hist. Bæði á meðgöngu og eftir fæðingu. Stað þar sem fjölskyldur geta fengið fræðslu frá fagaðilum en líka bara hist á óformlegum foreldramorgnum og rætt um það sem skiptir þau máli hverju sinni.

Þótt að hjarta starfsemi Fæðingarheimilis Reykjavíkur sé ljósmæðraþjónustan þá vitum við líka að konur og fjölskyldur hafa fjölbreyttar þarfir. Því munu einnig starfa aðrir fagaðilar á Fæðingarheimilinu – og verður þannig boðið upp á fjölbreytta starfsemi svo sem jóga, nudd, sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf og fleira.

Fæðingarheimili Reykjavíkur býður upp á samfellda og einstaklingsmiðaða þjónustu frá kynþroska til breytingaskeiðs. Konur geta leitað til okkar með ráðgjöf um getnaðarvarnir, barneignarþjónustu og brjóstagjöf og einnig fengið ráðgjöf um breytingaskeið. Við bjóðum barnshafandi konum upp á samfellda þjónustu ljósmæðra við 34 vikna meðgöngu, í fæðingu á Fæðingarheimilinu og heimaþjónustu á fyrstu 10 dögum sængurlegunnar. En þekkt er að samfelld þjónusta auki gæði þjónustunnar, öryggi og vellíðan nýrra fjölskyldna og starfsánægju ljósmæðra. Þrátt fyrir þetta eiga konur á barneignaraldri ekki marga möguleika á slíkri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Fæðingarheimili Reykjavíkur eykur möguleika kvenna á samfelldri þjónustu sem er einstaklingsbundin, fagleg og heildræn.

Á einum stað getur þú nálgast þjónustu sem þú getur verið viss um að sé veitt af virðingu - frá teymi ljósmæðra og annarra fagaðila sem hafa sett sér það markmið að veita góða fræðslu og þjónustu á þínum forsendum. Nú standa framkvæmdir yfir í húsnæði okkar að Hlíðarfæti 17 og hlökkum við til að opna Fæðingarheimilið í sumar og taka á móti fjölskyldum. Til þess að við getum opnað strax með fjölbreytta þjónustu þá þurfum við að safna pening fyrir ýmsum húsgögnum og tækjum til að fullbúa meðferðarherbergi og fæðingarstofur. Því erum við með happdrætti í gangi núna – og ef það gengur vel – getum við fjármagnað þetta síðasta skref að fullu! (https://tix.is/is/event/12901/happdr-tti-til-styrktar-f-ingarheimili-reykjavikur/)

Hvað er markmið ykkar?  Af hverju stofnuðum þið Fæðingarheimili Reykjavíkur?

Emma M. Swift og Embla Ýr Guðmundsdóttir ljósmæður stofnuðu upphaflega Fæðingarheimili Reykjavíkur. Þær voru sammála um að markmið þeirra sé að Fæðingarheimilið verði einstakt samfélag fyrir konur og fjölskyldur þeirra þar sem veitt verður fyrsta flokks þjónusta, góð fræðsla og stuðningur sem er sniðinn að þörfum hverrar og einnar konu. 

Fæðingarheimilið verður staður þar sem konur og fjölskyldur þeirra fá persónulega, samfellda þjónustu frá ljósmóður sem styrkir þær og eflir.

Fæðingarheimilið verður nútímalegt og mætir öllum þörfum fæðandi kvenna varðandi öryggi en leggur að auki áherslu á góð og styrkjandi samskipti í barneignarferlinu til að styðja við þá sýn okkar og markmið að þetta tímabil eigi að vera stórkostlega gefandi og magnað. En okkar draumur var einnig að konur myndu upplifa þessa samfelldu þjónustu og stuðning fyrir og eftir þungun. Að þær fái tækifæri til að fá umönnun og fræðslu frá ljósmóður fyrir þungun, þegar þær þurfa á ráðgjöf um getnaðarvarnir að halda eða jafnvel við tíðahvörf. Það gleður okkur óendanlega að nú er draumurinn um Fæðingarheimili Reykjavíkur að verða að veruleika. 

Hvaða námskeið bjóðið þið upp á?

Ljósmæður Fæðingarheimilisins búa yfir mikilli reynslu í umönnun fjölskyldna í barneignarferlinu og hafa sérstakan áhuga á því að styðja verðandi foreldra í því að undirbúa sig á praktískan hátt fyrir fæðinguna og tímann eftir fæðingu og eru öll okkar námskeið byggð á nýjustu rannsóknum um barneignarferlið með fræðslu og upplýst val verðandi foreldra að leiðarljósi. Þær starfa einnig allar við kennslu við Háskóla Íslands og hafa því mikla reynslu varðandi mismunandi kennsluhætti – og eru stöðugt að bæta við sig nýrri þekkingu um nýjustu rannsóknir.

Við bjóðum upp á fæðingafræðslunámskeið sem kallast Betri fæðing. Námskeiðið er kennt á íslensku, ensku og pólsku og er þetta í fyrsta sinn hér á landi þar sem þörfum erlendra kvenna er mætt á þennan hátt. Á námskeiðinu leggjum við mikla áherslu á að gefa þátttakendum tækifæri til að æfa slökun, mismunandi stellingar og bjargráð. Með þessu móti eru þau betur undirbúin til að takast á við fæðinguna. Salurinn er rúmgóður og við erum með bolta, dýnur, rebozo sjöl, nudd olíur og fleira til þess að gefa fólki tækifæri til að sjá hvernig nýta megi þessa hluti í fæðingunni! Áralöng reynsla okkar hefur sýnt að þótt það sé mikilvægt að gefa fólki upplýsingar um lífeðlisfræði fæðingar og hvað gerist á hverju stigi fæðingar – þá skiptir meira máli að gefa fólki upplýsingar um þá hluti í fæðingarferlinu sem það hefur val um. Á námskeiðinu leggjum við því áherslu á fræðslu um kosti og galla inngripa, ræðum um hvernig við tökum ákvarðanir og hvaða upplýsingar við þurfum að hafa til þess að geta virkilega tekið upplýstar ákvarðanir. Við reynum að passa að námskeiðin séu ekki bara upptalning af glærum heldur fari fram samtal milli þátttakenda og ljósmóður – og þannig gefst líka tími til að svara spurningum þeirra sem eru á námskeiðinu.

Einnig bjóðum við upp á námskeið um fyrstu dagana eftir fæðingu. Reynsla okkar í heimaþjónustu eftir fæðingu hefur sýnt okkur að það sem skiptir mestu máli fyrir fólk er að það hafi raunhæfar væntingar um hvernig þessi tími er. Við förum því yfir svefn nýbura, brjóstagjöf og hvaða tilfinningum má búast við þegar við verðum foreldrar.  Við erum líka með dúkkur og brjóst þannig að verðandi foreldrar geta fengið að æfa ýmsar stellingar við brjóstagjöf. Á þessu námskeiði, eins og námskeiðinu um fæðinguna, leggjum við áherslu á upplýst val. Við fjöllum því um kosti og galla þeirra ákvarðana sem nýir foreldrar standa frammi fyrir þessa fyrstu daga, ræðum áskoranir og hvaða bjargráð megi nýta til að takast á við þær. Umfram allt vonumst við til þess að verðandi foreldrar fari fullir af tilhlökkun inn í þennan tíma en um leið með raunhæfar væntingar í farteskinu.

Námskeiðin eru öll kennd á staðnum í rúmgóðum sal þar sem er auðveldlega hægt að halda góðri fjarlægð milli þátttakenda. Við bókum einnig mest 6 pör á hvert námskeið - þannig myndast gott rými fyrir spurningar og umræður um það sem skiptir fólki mestu máli. Þar til við opnum fæðingarheimilið formlega í sumar, þá kennum við öll námskeiðin í sal dansskólans Óskandi á Seltjarnarnesi. Við erum þeim mjög þakklátar fyrir samstarfið!

Við erum með námskeið á ensku og pólsku – og þau eru kennd af fólki sem talar tungumálið og hefur einnig reynslu af því að vera innflytjendur á Íslandi.

Hverjir starfa á Fæðingarheimili Reykjavíkur?

Emma og Embla stofnuðu Fæðingarheimili Reykjavíkur. Þegar við kynntumst Edythe og Stefaníu þá áttuðum við okkur fljótt á því að þær deildu hugsjón okkar og hugmyndum um hvernig við viljum sinna konum og fjölskyldum þeirra - og úr varð teymi fjögurra ljósmæðra! Nú með tímanum höfum við verið að fjölga starfsfólki og höfum við meðal annars fengið til liðs við okkur ljósmóður sem sérhæfir sig í breytingaskeiði kvenna, pólska ljósmóður og doulu sem halda námskeiðin hjá okkur á pólsku auk ljósmóður og jógakennara sem mun bjóða upp á jóganámskeið um leið og við opnum.

Hverjir geta sótt þjónustuna?

Við leggjum mikið upp úr því að bjóða öllum konum upp á þjónustu Fæðingarheimilisins óháð uppruna og efnahag. Heimasíðan okkar www.faedingarheimilid.is er á íslensku, ensku og pólsku. Auk þess eru öll námskeið haldin á þessum þremur tungumálum og kennd af einstaklingum sem hafa tungumálið sem sitt fyrsta tungumál.

Öllum konum býðst eftirfarandi þjónustu veitta af ljósmæðrum Fæðingarheimilisins:

 • ráðgjöf fyrir meðgöngu til að stuðla að heilbrigðu barneignarferli
 • námskeið og ráðgjöf um fæðingu, brjóstagjöf og foreldrahlutverkið
 • heimaþjónustu í sængurlegu í 10 daga eftir fæðingu
 • brjóstagjafaráðgjöf á fyrstu 14 dögum eftir fæðingu
 • getnaðarvarnarráðgjöf og ávísun/uppsetning getnaðarvarna
 • ráðgjöf um breytingaskeiðið
 • samtal um fæðingarupplifun – sérstaklega fyrir konur sem hafa erfiða upplifun af fæðingu
 • ýmiskonar stuðningur sem stuðlar að heilbrigðu líferni svo sem sjúkraþjálfun og jóga
 • fræðslukvöld og foreldramorgnar

Fæðing á Fæðingarheimili Reykjavíkur hentar konum ef:

 • þær eru hraustar og meðgangan hefur verið án áhættuþátta
 • fæðing hefst þegar meðgöngulengd er milli 37-42 vikur
 • þær ganga með eitt barn sem er í höfuðstöðu
 • þær vilja fá persónulega þjónustu frá ljósmæðrum sem þekkja þær og þeirra óskir

Við bjóðum öllum verðandi foreldrum sem hafa áhuga á því að fæða barn sitt á Fæðingarheimilinu að bóka hjá okkur viðtal þar sem farið verður vandlega yfir hvort Fæðingarheimilið sé góður valkostur fyrir ykkur.

Valmynd