Fréttir

Fæðingin ykkar - handbók fyrir verðandi foreldra

12.maí 2022

Nýlega kom út bók sem ber nafnið Fæðingin ykkar - handbók fyrir verðandi foreldra. Í daglegu tali hefur hún kallast Fæðingarhandbókin og getur hún reynst frábært verkfæri í undirbúningi fyrir fæðingu. Í þessari grein verður fjallað um höfundinn Ingu Maríu Hlíðar Thorsteinsdóttur ljósmóður og fáum við að kynnast ferlinu við gerð bókarinnar.

Inga María er 31 árs tveggja barna móðir. Þessa dagana er Inga María stödd með fjölskyldunni sinni í Lundi í Svíþjóð þar sem maðurinn hennar undirgengst nýja og flókna krabbameinsmeðferð en hann greindist með eitilfrumukrabbamein síðastliðið sumar þegar þau voru nýbúin að tilkynna nánustu ættingjum að þau ættu von á öðru barni þeirra í lok árs.

Inga María hefur víðtæka reynslu og starfar hún sem ljósmóðir á fæðingardeildinni á Akranesi en er nú í barnseignarleyfi. Áður hefur hún starfað sem ljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans og á meðgöngu- og sængurlegudeild. Inga María vann sem hjúkrunarfræðingur á Vökudeild og á legudeild barna á Landspítalanum. Þá hefur hún einnig sinnt heimaþjónustu ljósmæðra og sinnt afleysingum í Björkinni. 

1650831617088.JPG

Markmið Fæðingarhandbókarinnar 

,,Ég trúi því að því meira sem þú veist um fæðingarferlið því betri verður upplifunin af fæðingunni. Það er mikilvægt að skilja hvað er að gerast í líkamanum þegar fæðing á sér stað, hvernig er hægt að hjálpa honum að fæða barnið. Það skiptir líka máli að upplifa að maður hafi stjórn í fæðingunni. Þess vegna er gott að skilja fæðingarferlið til að geta tekið virkan þátt í ákvörðunum varðandi það. Það er ekki hægt að hafa fullkomna stjórn á öllu en það er munur á að missa stjórn og að sleppa takinu og treysta." segir Inga María aðspurð um markmið Fæðingarhandbókarinnar.

Bætir hún svo við:

,,Hvernig konur og makar þeirra upplifa fæðinguna er mjög mikilvægt. Margar konur hafa lýst því að fæðing sé valdeflandi viðburður. Ef upplifun af fæðingunni er góð eru meiri líkur á að þær muni öðlast sjálfstraust eftir fæðinguna sem fylgir þeim inn í foreldrahlutverkið og áfram í lífinu. Því eru þeir foreldrar sem upplifa fæðinguna vel með smá forskot á hina sem eiga erfiða fæðingarreynslu. Því er einlægt markmið mitt að veita upplýsingar sem ég tel að muni vera góður undirbúningur fyrir fæðingu svo að sem flestir fái eins góða upplifun af þessum merka viðburði og hægt er."

Að sögn Ingu Maríu hentar bókin fólki hvort sem það er að eignast sitt fyrsta barn eða ekki. Aðstæður eru mjög mismunandi hjá fólki. Það getur liðið langt á milli barna eða verið kominn nýr maki. Kannski finnst konum sem hafa áður farið á fæðingarfræðslunámskeið óþarfi að fara aftur á slíkt námskeið og þá gæti verið sniðugt að glugga í þessa bók. Hún er einnig frábær fyrir foreldra sem eru að eignast sitt fyrsta barn og ætla líka á fæðingarfræðslunámskeið. Þá getur verið gott að renna yfir bókina fyrir námskeiðið og þá vakna kannski spurningar sem hægt er að spyrja á námskeiðinu. Ef farið er snemma á námskeiðið á meðgöngunni er síðan gott að hafa bókina heima við þessar síðustu vikur til að rifja upp áður en stóri dagurinn rennur upp.

Hvernig varð Fæðingarhandbókin til?

Aðspurð hvernig hugmyndin að bókinni kviknaði sagði Inga María að hún hafi byrjað að skrifa niður punkta í þeim tilgangi að fræða manninn sinn fyrir fæðingu frumburðar þeirra. Með því vonaði hún að maðurinn sinn yrði rólegur í fæðingunni sem myndi þá styðja við hennar ró þar sem hún var meðvituð um mikilvægi þess að ró og næði ríkti í fæðingu og að fólk upplifi öryggi í gegnum ferlið. ,,Eftir því sem leið á meðgönguna bættist alltaf meira og meira við punktana og á endanum var ég búin að búa til handbók sem hann kláraði ekki að lesa fyrr en inn á milli hríða hjá mér. Hann hafði dregið það svo lengi að klára bókina en náði sem betur fer að ljúka henni í tæka tíð", segir Inga María. Inga María teiknaði einnig skýringarmyndir í handbókina sína og fékk útgefandinn síðar fagmenn til að teikna myndirnar sem má finna í Fæðingarhandbókinni.

Inga María hélt svo áfram að bæta við bókina í fæðingarorlofinu sínu. Gerði hún tilraun til þess að byrja í námi og sinna öðrum hlutum en áhuginn á að vinna í bókinni yfirtók allt annað. Inga María ákvað að auglýsa eftir myndum af konum með mökum sínum í fæðingu inni á Facebook hópnum Mæðra tips og fékk þar ótrúlega fallegar myndir sendar og við það fékk hún staðfestinguna að hún þyrfti að gefa út þessa bók, þó það væri ekki nema til að sýna þessar fallegu myndir úr mjög ólíkum fæðingum. Hafði hún samband við útgefanda sem leist mjög vel á hugmyndina.

Inga María skrifaði alla bókina sjálf en fékk nokkrar vinkonur sínar úr ljósmóðurfræðinni til að lesa hana yfir, vinkonu sína sem er læknir og á leið í sérnám í fæðingarlækningum, aðrar vinkonur sem áttu von á barni og svo manninn sinn. Telur hún ómetanlegt að fá yfirlestur frá svona ólíku fólki sem hún telur styrkja bókina enn frekar.

Hvar er hægt að nálgast bókina?

Fæðingarhandbókina er hægt að nálgast í öllum helstu bókabúðum landsins. Hún fæst líka í 9 mánuðum, Björkinni, Jógasetrinu, Tvö líf og Hagkaup svo eitthvað sé nefnt. Hana má einnig finna á bókasöfnum landsins. Hægt er að hafa sambandi við Ingu Maríu á Instagram (@faedingarhandbokin) þar sem hægt er að nálgast bókina og ýmsan fróðleik.

1650831737182.png

Valmynd