Lokað fyrir heimsóknir barna vegna RS veiru

10. desember 2019
brown bear plush toy on white table

Í ljósi þess að komið hafa upp smit RS veirunnar hefur sú ákvörðun verið tekin að loka fyrir heimsóknir barna yngri en 12 ára á eftirfarandi deildir Landspítala:

  • Fæðingarvakt
  • Meðgöngu- og Sængurlegudeild
  • Meðgönguvernd, fósturgreining og bráðaþjónusta kvennadeilda
  • Vökudeild

Þessar lokanir eru gerðar til að vernda viðkvæma nýbura fyrir sýkingum. Einstaklingar 12 ára og eldri eru einnig beðnir að huga vel að því að koma ekki inn á deildir ef þeir finna fyrir einhverjum kvefeinkennum og almennt eru foreldrar beðnir að halda öllum heimsóknum í algjöru lágmarki. Í flestum tilfellum er dvölin á sjúkrahúsinu stutt og gott fyrir nýbakaða foreldra að vera í næði með barninu/börnunum fyrst um sinn.

Gott er að beina þeim tilmælum til gesta, bæði á sjúkrahúsi og eftir að heim er komið, að þvo sér vel og sótthreinsa hendur. Þá er ráðlagt að foreldrar nýbura sem eiga eldri börn á leikskólum eða yngri bekkjum grunnskóla, láti börnin þvo sér og sótthreinsa hendur eftir leikskóla/skóla og jafnvel skipta um föt.

Hvað er RS veira?

Respiratory Syncytial Virus

RS-veira er kvefveira sem leggst bæði á efri og neðri öndunarvegi. Sýkingin veldur kvefi og oft bólgu og þrengingum í smáum berkjum lungnanna með öndunarerfiðleikum og hvæsandi öndun sérstaklega hjá mjög ungum börnum. Þetta er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa en getur lagst þungt á fyrirbura og ung börn innan sex mánaða.

Algengast er að sýkingin komi fram á veturna og vorin og getur þá valdið faraldri hjá ungum börnum.

Nánar um RS-veiru