Ljósmóðir.is notar vafrakökur til að bæta notendaupplifun og stuðla að frekari þróun heimasíðunnar.
Upplýsingar um vafrakökur
Góðan dag, Sonur minn er að verða 6 vikna, og hefur nú verið einungis á þurrmjólk í viku. En síðan hann byrjaði að vera einungis á þurrmjólk hefur hann ælt rosalega!! Erum að tala um gusur sem koma uppúr honum. Erum búin að prófa nan og núna hipp og það er sama sagan. En við getum samt ekki séð að honum líði illa eða pirringur í maganum, hann fer ekkert að gráta áður en hann ælir eða eftir. Hvað er til ráða?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Spurning hvort að hann sé með bakflæði sem er algengt á þessum tíma. Þá er mikilvægt að halda honum uppréttum í smá tíma eftir gjafir og sjá hvort það minnki ælurnar. Einnig að passa að hann ropi eftir gjafir. Ég ráðlegg þér að leita til ungbarnaverndar ef það hjálpar ekki. Gangi þér vel.
Bestu kveðjur, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.
hæhæ, ég á samkvæmt snemmsónar að vera komin um 8 vikur á leið.. og er hingað til búin að vera með mikla ógleði, spennu í brjóstum, togverki og tilheyrandi en núna seinustu tvo daga er ég varla búin að finna fyrir neinum einkennum, er það eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af? smá túrverkja seiðingur inná milli samt. við annars sáum og heyrðum hjartslátt í seinustu viku, eru minni líkur á missi ef að við erum búin að sjá og heyra hjartslátt? er búin að missa tvisvar fyrir þetta og hef rosa miklar áhyggjur af þessu öllu saman það var enginn hjartsláttur þegar að ég missti í seinustu tvö skiptin. takk fyrir frábæran vef annars! það er mikils virði að geta leitað sér upplýsinga
Eftir að hjartsláttur hefur sést í snemmsónar þá eru minni líkur á fósturláti, en talið er að fimmtungur þungana endi í fósturláti á fyrsta þriðjung en um 3% eftir að hjartsláttur hefur sést í sónar. Því miður get ég ekki sagt til um með einkenninn, það er mismunandi hversu mikil ógleði finnst, togverkir og brjóstaspenna.
Farðu vel með þig og fylgstu áfram með. Gangi þér vel.
Hæ! Ég er komin rúmar 7 vikur. Ég fékk ost að gjöf og borðaði nokkra bita af honum í síðustu viku en fattaði svo allt í einu að gúgla hann (sænskur almnäs tegel) og komst að því að hann er ógerilsneyddur. Þarf ég að hafa áhyggjur?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina
Nei ekki hafa áhyggjur af því.
Ráðlagt er að borða ekki ógerilsneyddar mjólkurvörur vegna möguleika á sýklun í ostinum sem er óalgengt. Það er bara til öryggis og algjör óþarfi að hafa áhyggjur.
Gangi þér vel.
Góðan dag. Er hægt að vera ófrískur en samt fara á sama tíma á venjulegar blæðingar eins og vanalega. Sama magn og sami litur. Er alltaf 7 daga á mínum en fyrstu 3 dagarnir er lítil blæðing og restin mikil en þetta er dagur 10 núna og ég er ennþá aum í leginu og að fá litlar bletta blæðingar sem er alls ekki vaninn (slím slykju). Er líka með endómetríósu en þetta hefur aldrei verið vesen með hringinn minn útaf því. Fór bara að spá með þetta.
Sumir fá hreiðursblæðingar á sama tíma og eðlilegar blæðingar ættu að vera. En þær eru yfirleitt minni en eðlilegar blæðingar. Það er þegar fóstrið er að festa sig við legvegginn. Öruggast væri að taka þunganarpróf að morgni til og athuga málið.
Má fara í kaldan pott á meðgöngu?
Best er að hlusta á líkamann í svona málum, ef þú ert vön að vera í köldum pottum geturu farið varlega og séð hvernig þér líður. Gott að prófa fyrst að vera styttra en þú ert vön og fara upp úr um leið ef þú upplifir vanlíðan.
Hæhæ, ég fæddi barn með keisara fyrir tæpum 7 vikum og kem enn ca. einum putta á milli magavöðvanna. Hvenær er í lagi að ég fari að æfa aftur til að gera þetta ekki verra? Er eitthvað sem ég þarf að passa?
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina. Það er einstaklingsbundið hvernær best er að byrja æfa eftir fæðingu og þarf maður að finna með sjálfum sér hvenær maður er tilbúinn. Ég ráðlegg þér að byrja rólega og leggja áherslu á rétta spennu kviðvöðvanna, þ.e. að reyna að ná tengingu við innri kviðvöðva og æfa spennu þeirra. Hvet ég þig til að fylgjast með bilinu milli kviðvöðvanna, þ.e. að bilið aukist ekki eða útbungun birtist milli þeirra. Ef það gerist er gott að minnka álagið og einbeita sér aftur að réttri spennu þar sem þetta kemur ekki fyrir. Ég hvet þig til að nýta þér þjónustu sjúkraþjálfara sem þú ættir að fá niðurgreitt. Gangi þér sem allra best.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.