Spurt og svarað
Hér má finna fyrirspurnir sem hafa borist og ljósmóðir hefur svarað. Hægt er að leita í fyrirspurnum eða sía eftir flokkum hér fyrir neðan.
Góðan daginn. Ég er með eina 5 vikna á brjósti sem hefur verið með töluverða vindverki og mikinn vindgang. Henni hefur gengið illa að ropa frá fæðingu sem mögulega útskýrir. Mín spurning er hvort það sé mögulega eitthvað í matarræðinu hjá mér sem veldur þessari uppþembu?
Takk fyrir fyrirspurnina,
Erfitt er að segja til um ástæðu vindverkja og uppþembu hjá krílinu þínu. Í sumum tilfellum gæti það verið vegna þess að barnið tekur inn mikið loft þegar það er á brjósti vegna mikils flæðis, hægðatregða, eða í sumum tilfellum mataræði móður. Meltingarkerfi ungbarna þarf oft tíma til að þroskast.
Einföld ráð væru að reyna að hjálpa henni að ropa eftir gjafir, hafa hana upprétta um stund, nudda magann og fleira sem stuðlar að hún nái að losa loft og hægðir. Mögulega gæti mataræði þitt en þá er gott að reyna tengja saman, t.d. hvort það sé vegna gosdrykkja eða mjólkur.
Ef þetta heldur áfram ráðlegg ég þér að hafa samband við ungbarnavernd í heilsugæslu.
Gangi ykkur vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir ljósmóðir.
Hvenær er gott að byrja að gefa börnum fjölvítamín?
Dóttir mín er 14 mánaða og ég hef verið að gefa henni D vítamín og lýsi hingað til.Takk fyrir fyrirspurnina,
Ef fæði er fjölbreytt er yfirleitt ráðlagt að taka inn d-vítamín eða lýsi. Lýsi inniheldur d-vítamín og omega 3 fitusýrur. Ekki er þörf að taka inn bæði lýsi og d-vítamín.
Fjölbreytt fæði inniheldur ávexti, grænmeti, korn, kjöt og fisk. Á þessum aldri þarf einnig að passa að borða járnríkan mat.
Sjá betur nýjan bækling frá Embætti Landlæknis um ráðleggingar um mataræði frá 2ja ára hér.
Ef hefur áhyggjur að barnið þitt sé ekki að fá nægileg vítamín ráðlegg ég þér að hafa samband við ungbarnavernd í heilsugæslunni þinni.
Gangi þér vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.
Hæhæ, ég þarf að fara í fóstureyðingu, og ég vildi spurja hvort maður þarf vottorð eða eitthvað fyrir það frá ykkur :)
Það er ekki þörf á vottorði fyrir þungunarrof. Á síðu Landspítalans eru leiðbeiningar þegar það er verið að íhuga að enda þungun. Sjá má hér undir flipanum þungunarrof. Gangi þér vel.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.
ég er komin 15 vikur og er flesta daga vikunnar með svakalegan höfuðverk hjá gagnauga. Ég er ekki vön að fá höfuðverk, ekki fyrr en núna. Þetta er þriðja meðgangan mín og í fyrsta skipti sem ég fæ svona svakalega höfuðverki. Ég drekk mikið vatn á daginn eða 2 L+, ég hef prufað að taka paratabs en finnst það ekki slá neitt á verkinn. Blóðþrýstingurinn er góður, efri mörk eru kannski fremur lág eða í kringum 105, ég fór í blóðprufu um daginn þar sem niðurstöður voru allar innan marka. Eru þið með einhver ráð fyrir mig svo ég geti minnkað verkina? ég fer í vinnuna og kem heim og ligg bara í bælinu það sem eftir er dags af verkjum
Takk fyrir fyrirspurnina,
Höfuðverkur snemma á meðgöngu gengur verið vegna hormónabreytinga eða vegna aukins blóðmagns í líkamanum. Líkt og þú ert nú þegar að gera er ráðlagt að drekka vel af vatni og reyna að hvílast. Forðast það sem gerir höfuðverkinn verri, ef það er mikil birta t.d. Ef höfuðverkurinn er mikill og hverfur ekki við paratabs og hvíld ráðlegg ég þér að leita til ljósmóður aftur í meðgönguvernd.
Gangi þér vel. Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.
Er í lagi að fara í nuddpott á meðgöngu?
Já það er allt í lagi að fara í nuddpott á meðgöngu en gott er að passa að hafa ekki nuddið á bumbuna ef það er mikill þrýstingur af því. Einnig er fínt að hafa vatnsbrúsa með sér og drekka vatn til að vökva líkamann á meðan. Gangi þér vel.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir
Er fólat og fólínsýra það sama á meðgöngu ? Ég sé að Venja vítamín er með methylfolate og talar um betri upptöku en almennt mælt með fólínsýru…
Fólat er B-vítamín sem líkaminn þarfnast til að framleiða heilbrigðar rauðar blóðfrumur, enn fremur er það mikilvægt fyrir fósturþroska og því er almennt mælt með að konur á barnseignaraldri og á meðgöngu taki inn fólat daglega í töfluformi. Ráðlagður dagskammtur er 400 míkrógrömm (mcg/µg).
Eðlilegt magn fólats í líkamanum á meðgöngu minnkar líkur á skaða í miðtaugakerfi fósturs. Mælt er með að taka það inn a.m.k. fram að 12 vikum meðgöngu. Sumum er ráðlagt að taka inn hærri skammt vegna áhættuþátta.
Fólat er að finna í grænmeti (t.d. spíntati og brokkolí), hnetum, baunum, sumum ávaxtategundum og í vítamínbættu morgunkorni. Sjá betur hér lista á heilsuveru undir Fólat.
Fólínsýra er myndað form fólats sem búið er til, líkaminn þarf að umbreyta því í virkt form fólats. Í ráðleggingum er ekki sagt til um að eitt formið sé betra en annað. Mikilvægt er þó líka að huga að fólatríku mataræði samhliða.
Gangi þér vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir ljósmóðir
Má drekka Collab orkudrykk með barn á brjósti?
Takk fyrir fyrirspurnina,
Framleiðendur Collab orkudrykkja merkja dósirnar með hann sé ekki æskilegur fyrir börn, barnshafandi konur og konur með barn á brjósti vegna mikils koffínmagns.
Í erlendum ráðleggingum er ekki ráðlagt að fara yfir 200-300mg koffíns á dag samhliða brjóstagjöf. Þá er ólíklegt að barn fái of mikið koffín í gegnum brjóstamjólk, skv. rannsóknum fær barn um 1,5% af því sem móðirin fékk sér. Magnið er hæst í brjóstamjólk um 1 klst eftir inntöku. Of mikið koffín getur haft áhrif á barn, t.d. vöku, pirring og fleira. Einnig innihalda orkudrykkir oft mikið B-vítamín sem er þá ekki ráðlagt að neyta samhliða öðrum fjölvítamínum.
Ef collab er neytt samhliða brjóstagjöf ætti að passa að gera það í hófi.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir ljósmóðir
Eru allir ostar á Íslandi gerilsneyddir? Líka innfluttu?
Ráðlagt er að borða ekki ógerilsneydda osta/mjólkurvörur á meðgöngu vegna hættu á bakteríum sem geta leynst þar.
Ostar sem eru framleiddir á Íslandi eru allir gerilsneyddir vegna reglugerðar hér á landi en það má flytja inn ógerilsneydda osta. Því er best að skoða innihald erlendra osta áður en þeim er neytt. Gerilsneyðing er t.d. pasteurization á ensku.
Gangi þér vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.

Senda inn fyrirspurn
Sendu okkur fyrirspurn og við svörum fljótlega*
*Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en það getur þó liðið allt að tvær vikur þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.