Brjóstin

Brjóstagjöf og broddmjólk

Fyrst eftir fæðinguna er broddmjólk í brjóstunum. Hún er gul að lit og er full af næringu og mótefnum sem er mikilvægt fyrir nýburann að fá.  Fyrsti broddurinn er oft kallaður fyrsta bólusetningin. Broddurinn er í litlu magni en er gríðarlega orkuríkur. Broddmjólkurtímabilið stendur yfir í u.þ.b. 2-5 daga og eru brjóstin yfirleitt ekki þrútin eða þung á þeim tíma. Margir foreldrar hafa áhyggjur af að barnið sé ekki að fá nóg þessa fyrstu daga en hjá hraustum fullburða börnum eru þær áhyggjur oftast óþarfar. Til þess að koma brjóstagjöfinni vel af stað er mikilvægt að örva brjóstin sem allra mest fyrstu sólarhringana. Því ætti barnið að hafa ótakmarkadan aðgang ad brjóstunum.  Fyrsta sólarhringinn eftir fæðinguna getur barnið verið þreytt og jafnvel með klígju og oft erfitt að koma þeim á brjóst. Ljósmæður eru tilbúnar til að aðstoða nýbakaða móður til að leggja barnið á brjóst. Annar og þriðji sólarhringurinn, eða tíminn áður en hin eiginlega brjóstamjólk myndast getur verið svolítið krefjandi þar sem börnin geta orðið sífellt ákafari og vilja liggja meira og meira á brjóstinu. Þessa daga skiptir mjög miklu máli að móðirin nýti tímann þegar barnið sefur til þess að nærast og hvílast og gott að takmarka allar heimsóknir mikið. Hér má lesa nánar um hegðun nýburans fyrstu dagana.

Mjólkurmyndun og stálmi

Um það bil þremur dögum (2.-5. degi) eftir fæðinguna, þá er broddmjólkurtímabilið að klárast og hin eiginlega brjóstamjólk byrjar að myndast í brjóstunum. Hún er öðruvísi samsett en broddurinn og er í meira magni.  Á þessum tíma getur komið stálmi í brjóstin. Þau verða þá mjög þrútin, aum, glansandi og heit viðkomu og getur reynst erfitt fyrir barnið að ná taki á brjóstinu. Það er mikilvægt að leggja barnið mjög ört á brjóst, helst á 1-3 tíma fresti og jafnvel vekja barnið á nóttunni til þess að létta á brjóstunum. Það getur verið hjálplegt að mjólka aðeins úr brjóstunum fyrir gjöf til að auðvelda barninu að ná taki. Það má gera með handmjólkun eða pumpu. Einnig getur hjálpað að þrýsta með fingurgómum á vörtubauginn í um það bil eina mínútu til að minnka bjúg á svæðinu. Þegar barnið hefur náð taki á brjóstinu ætti að reyna að hafa það á í að minnsta kosti 10 mínútur á hvoru brjósti, því lengur, því betra. Þrotinn í brjóstunum stafar ekki eingöngu af mjólkinni sem er að myndast heldur er einnig í brjóstvefnum bjúgur. Eftir gjöfina getur verið ágætt að kæla brjóstin með köldum bakstri. Hann má útbúa til dæmis með því að bleyta taubleyju, setja í poka og frysta. Hún er svo vafin í aðra bleyju og lögð á brjóstin eftir gjöf. Gamalt húsráð er að nota kælt hvítkál og setja yfir brjóstin, kuldinn í því helst lengi og lögun kálblaðanna hentar vel. Það getur einnig reynst gagnlegt að taka inn verkjalyf, panodil 1g og  íbúfen 400 mg á 6 klst fresti, mest fjórum sinnum yfir sólarhringinn (skoðið fylgiseðil lyfja fyrir inntöku). Þetta ástand ætti ekki að vara meira en 48 klukkustundir. Ef ástandið hefur ekki batnað á þeim tíma er mikilvægt að komast í mjaltavél og mjólka brjóstin. Hægt er að leita aðstoðar við meðhöndlun stálma hjá heimaþjónustuljósmæðrum eða á næsta fæðingarstað eftir því sem við á. Á þessum tíma er mikilvægt að bjóða barninu helst ekki snuð. Nýta ætti alla sogkrafta barnsins til þess að sjúga brjóst móðurinnar til þess að bæta ástandið.

Verkur í geirvörtum

Margar konur finna fyrir verkjum í geirvörtum fyrstu dagana eftir að brjóstagjöf hefst. Þegar barnið er lagt á finnur konan stundum fyrir verk en hann ætti smám saman að minnka og hverfa. Ef verkurinn er mjög sár og minnkar ekki þegar líður á gjöfina er barnið sennilega ekki að taka vörtuna rétt. Það er mikilvægt að leiðrétta gripið fljótt til þess að minnka líkur á að móðirin fá sár á vörturnar. Eymsli við brjóstagjöf ættu að hætta á fyrstu vikum eftir fæðingu. Það er mikilvægt að útiloka að um vitlaust grip sé að ræða eða að móðirin sé mögulega með sveppasýkingu eða annað. Því ættu mæður alltaf að leita ráða hjá ljósmæðrum eða brjóstagjafaráðgjöfum til þess að meta orsök verkja. Ef konan er mjög aum eða jafnvel komin með sár má fá gelfilmur ( e. Hydrogel pads) til þess að leggja yfir vörturnar. Þær kæla vörtuna og halda réttu rakastigi sem flýtir fyrir gróanda. Ef sárin gróa ekki á einni viku þarf að meta hvort að sárin séu orðin sýkt og þarf þá að hefja viðeigandi meðferð.

HÉR má nálgast ýmislegt fróðlegt um brjóstagjöf. 
Nóvember 2018
Valmynd