Grindarbotninn

Kona sem hefur fætt um leggöng getur verið mjög aum á spangarsvæði og í saumum fyrstu dagana eftir fæðingu. Verkjalyfin paratabs og íbúfen hjálpa til við þessa verki og er um að gera sitja og standa ekki of lengi í einu til að koma í veg fyrir bjúgmyndun á svæðinu. Sumum konum finnst hjálplegt að nota klakabindi til að draga úr bjúg og bólgum á spangarsvæði. Til að útbúa þau eru venjuleg dömubindi bleytt með kranavatni og sett inní frysti, gætið að hreinlæti. Konur sem hafa rembst lengi en endað í keisaraskurði geta einnig verið aumar á spangarsvæði. Sama gildir um endaþarminn en gyllinæð er ekki óalgeng eftir fæðingu og við henni eru til krem og stílar sem hjálpa mikið til. Það eru til bæði lyfseðilsskyld og ólyfseðilskyld lyf við gyllinæð. Hægt er að lesa nánar um gyllinæð hér.

Saumar

Algengt er að konur rifni eitthvað í fæðingunni og séu þá með einhverja sauma í leggöngum, á spangarsvæði eða börmum. Þessir saumar eyðast að sjálfu sér. Áverkar á spangarsvæði skiptast í fjögur stig þar sem alvarleikinn er metinn. Við fyrstu gráðu rifu hefur einungis slímhúð rofnað. Við annarar gráðu rifu hefur hluti af vöðvalagi rofnað, þetta eru algengustu rifurnar eftir fæðingu um leggöng. Við þriðju og fjórðu gráðu áverka hefur vöðvalagið rofnað það djúpt að endaþarmsvöðvinn hefur rofnað að hluta eða alveg (sjaldgæft). Það er mikilvægt að huga vel að hreinlæti, þvo hendur áður en farið er á salerni og er gott að skola svæðið 3-4 sinnum á dag fyrstu dagana. Það er eðlilegt að finna fyrir verkjum fyrst eftir fæðinguna en þeir ættu smám saman að minnka. Ef þér finnst verkirnir ekki minnka eða versna ættirðu að láta ljósmóður eða lækni vita. Einnig getur verið gott að skoða svæðið með spegli og athuga hvort að þér finnist eitthvað vera óeðlilegt. Það er eðlilegt að finna fyrir svolitlum kláða undna saumunum á ca. 2-3 degi en hann fylgir oft þegar sárið byrjar að gróa.

Konur sem fæða með keisaraskurði eru með umbúðir yfir skurðsvæðinu fyrstu dagana. Fylgst er með hvort blæði í umbúðirnar. Það ætti að vera í lagi að fara í sturtu á öðrum degi þar sem umbúðirnar eru vatnsheldar. Á 5. eða 6. degi eru umbúðirnar teknar af ásamt því að hefti eða saumar eru fjarlægðir. Hér má lesa nánar um keisaraskurði.  


Ytri kynfæri

Mikill þrýstingur í fæðingunni og aukið blóðflæði til kynfæra á meðgöngu valda því að oft er þetta svæði mjög aumt og bólgið/bjúgað eftir fæðingu. Bólgan lagast oftast á nokkrum dögum. Konur sem rifna eða hafa verið klipptar eru oft lengur að jafna sig. Við áhaldafæðingar þar sem notaðar voru sogklukka eða tangir geta liðið nokkrar vikur þar til óþægindi hverfa. Það getur verið gott að gefa barninu í útafliggjandi stellingu til að forðast þrýsting niður á kynfærin og sitja ekki lengi í sömu stellingu. Ekki er ráðlagt að sitja á uppblásnum hring eins og var áður mælt með þar sem það getur aukið bjúgmyndun á svæðinu. Kaldir bakstrar geta hjálpað og sjálfsagt er að taka verkjalyf til að auðvelda sér hreyfingu við umönnun barnsins. Hreyfing er af hinu góða og flýtir bata.

Nóvember 2018

Valmynd