Kynlíf á meðgöngu

10. júlí 2025

Það er virkilega sárt fyrir mig að stunda kynlíf síðan ég varð ólétt, er hálfnuð á meðgöngunni og er svo hræðilega viðkvæm í leggöngunum, er ekki með nein önnur einkenni sveppasýkingar þannig þykir ólíklegt að það sé skýringin, hvað er til ráða?

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,

Kynlíf á meðgöngu breytist oft vegna líkamlegra og andlegra breytinga á meðgöngu. Kynlöngun getur minnkað, aukist eða haldist óbreytt og getur það átt við þungaðan einstakling en einnig maka.

Á heimasíðu Bjarkarinnar má finna frábæra grein um kynlíf á meðgöngu. Þar kemur fram eftirfarandi:

,,Sumum konum finnast samfarir óþægilegar á meðgöngu. Það getur t.d stafað af eftirfarandi atriðum: æðaþregnslum í grindarbotni en þá geta grindarbotnsæfingar hjálpað. Þrengslum í leggöngum og minnkaðri framleiðsla á útferð en þá geta sleipiefni hjálpað. Slökun á liðböndum í lífbeini og mjaðmagrind. Þyngd makans sem þrýstir á legið, en þá getur verið gott skipta um um stellingar. Ef höfuðið er vel skorðað i grind getur það truflað, lika ef að það eru sýkingar í kynfærum s.s sveppasýking, herpes eða kynfæaravörtur.

Aðrir sálfræðilegir þættir geta haft þar áhrif á kynlífið eins og þreyta, kvíði, ótti, lítið sjálfstraust, léleg líkamsímynd, kynferðisleg sektarkennd, og persónuleg vandamál milli konunar og makans."

Voandi hjálpa þessar upplýsingar. Gott er að taka gott spjall við makann sinn um þessi efni og hjálpast að við finna út hvað virkar fyrir ykkur. Líklega myndi hjálpa til að gefa forleik góðan tíma og nota skeipiefni. Kynlíf á ekki að vera vont né óþægilegt. Ef þú ert áfram að upplifa óþægindi og hefur löngun í að stunda kynlíf hvet ég þig til að opna umræðuna við ljósmóður þína í mæðravernd. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.