Brúnir flekkir á húð á meðgöngu
Er það eðlilegt að fá brúna flekki og þurrka undir handleggina og á milli brjósta á meðgöngunni? Ég er mest að velta fyrir mér hvort ég þurfi að leita til húðlæknis eða hvort þetta sé eðlilegt
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Það er erfitt að segja með vissu hvers eðlis flekkirnir eru á þess að sjá þá. Ég ráðlegg þér að leita til ljósmóður eða heimilislæknis til að meta þetta með þér.
Breytingar á húð eru algengar á meðgöngu og hafa þá hormónin mikil áhrif. Húðin getur orðið dekkri á meðgöngunni vegna hormónabreytinga og geta meðal annars dökkir blettir myndast sem eru algjörlega skaðlausir.
Meðgangan getur þó ýtt undir exem og einnig aukið líkur á sveppasýkingu. Sé kláði til staðar eða roði gæti verið að um annað hvort sé að ræða.
Gangi þér vel í framhaldinu.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.
