Fólat - Fólínsýra

03. mars 2025

Er fólat og fólínsýra það sama á meðgöngu ? Ég sé að Venja vítamín er með methylfolate og talar um betri upptöku en almennt mælt með fólínsýru…

Fólat er B-vítamín sem líkaminn þarfnast til að framleiða heilbrigðar rauðar blóðfrumur, enn fremur er það mikilvægt fyrir fósturþroska og því er almennt mælt með að konur á barnseignaraldri og á meðgöngu taki inn fólat daglega í töfluformi. Ráðlagður dagskammtur er 400 míkrógrömm (mcg/µg).

Eðlilegt magn fólats í líkamanum á meðgöngu minnkar líkur á skaða í miðtaugakerfi fósturs. Mælt er með að taka það inn a.m.k. fram að 12 vikum meðgöngu. Sumum er ráðlagt að taka inn hærri skammt vegna áhættuþátta.

Fólat er að finna í grænmeti (t.d. spíntati og brokkolí), hnetum, baunum, sumum ávaxtategundum og í vítamínbættu morgunkorni. Sjá betur hér lista á heilsuveru undir Fólat.

Fólínsýra er myndað form fólats sem búið er til, líkaminn þarf að umbreyta því í virkt form fólats. Í ráðleggingum er ekki sagt til um að eitt formið sé betra en annað. Mikilvægt er þó líka að huga að fólatríku mataræði samhliða.

Gangi þér vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir ljósmóðir