Meðgöngueitrun - hjartamagnýl
Góðan dag. Ég fékk mjög alvarlega meðgöngueitrun eftir að ég var búin að fæða á síðustu meðgöngu sem og að hluti af fylgju varð eftir inn í mér sem endaði með því að ég var lögð inn í fimm daga eftir á.
Er núna búin að vera taka hjarta magnýl síðan á 12 viku og er með tvær spr.
Er vaninn að taka hjarta magnýlið út meðgöngu og eru miklar líkur á að ég fái aftur meðgöngueitrun
Er líklegt að hluti fylgju verði aftur eftir inn í mér og setji mig aftur í lífshættu?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Í byrjun meðgönguverndar er gert áhættumat. Þegar talin er ákveðin hætta á meðgöngueitrun er ráðlagt að taka inn Hjartamagnýl í lágum skömmtum sem fyrirbyggjandi lyf. Auknar líkur er að greinast meðgöngueitrun aftur í seinni meðgöngu eftir að hafa greinst í fyrri meðgöngu/m.
Talið er að lyfjameðferðin geti minnkað líkur á meðgöngueitrun fyrri 37 vikna meðgöngu um 24% og minnkað líkur á vaxtarskerðingu barns um 20%.
Almennt er ráðlagt að taka inn lyfið frá 12. viku til 36.viku meðgöngunnar. Ljósmóðir ráðleggur að taka inn lyfið í fyrsta meðgönguverndartíma.
Vegna fyrri sögu er ráðlagt að notast við virka meðferð á 3.stigi fæðingar. Sjá má betur hér.
Ég ráðlegg þér eindregið að ræða við ljósmóður þína í meðgönguvernd um síðustu fæðingu ef þú hefur ekki gert það nú þegar. Einnig er hægt að ræða áhyggjur ef þær eru til staðar. Gangi þér rosalega vel á komandi tímum.
Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.