Gufubað og heitir pottar á meðgöngu

08. apríl 2024

Sæl veriði. Ég er vön að fara mikið í sund, í heitu pottana og gufuböð. Ég fór nokkrum sinnum á fyrsta hluta meðgöngu, er gengin núna 11 vikur og 3 daga. Oftast í heitan pott um 36-38 gráðar, einu sinni í 40 gráða pott en alveg örstutt. Hef líka farið í gufuböð en fann að ég entist styttra en venjulega. Nú er ég frekar stressuð að hafa gert þetta eftir að hafa lesið mig til um að það sé mælt gegn því að stunda pottana og gufuböðin, fyrst um sinn. Spurningin er, getur þetta haft skaðleg áhrif á fóstrið? og hvernig þá?

Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,

Almennt er ráðlagt að passa sig á mjög heitum pottum og gufuböðum á meðgöngu, þá sérstaklega fyrsta þriðjungi þar sem það getur hækkað líkamshita móður og þar af leiðandi hitastig hjá barninu. Einhverjar rannsóknir sýna fram á aukin fósturfrávik ef það var í lengri tíma.

Líkamarnir segja okkur oftast til um líðan okkar, ef þér leið vel og hlustaðir á líkamann þinn þá hefur það ekki skaðleg áhrif á fóstrið. Ef manni verður of heitt þá fer maður fljótt í aðeins kaldari pott. Sumar konur upplifa líka aðsvif við að fara upp úr heitum pottum á meðgöngu og því ráðlagt að passa upp á að drekka nóg.

Gangi þér vel og kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.