Má stunda innanhúsklifur á meðgöngu?

29. júní 2024

Góðan daginn, ég var að komast að því að ég er þunguð og er komin um það bil 5 vikur á leið. Ég hef stundað innanhúsklifur í rúmt ár núna og fer alltaf a.m.k. tvisvar í viku. Nú veit ég að það er ekki mælt með að stunda íþróttir þar sem þú getur dottið en er það öðruvísi með innanhúsklifur þar sem þar eru dýnur til að grípa mann ef maður dettur? Einnig vil ég taka fram að ég hef einungis einu sinni dottið á þessu rúma ári sem ég hef stundað þessa íþrótt.

Góðan daginn og takk fyrir fyrirspurnina,

Klifur innanhúss getur verið fín hreyfing a.m.k. fyrri part meðgöngu ef farið er varlega. Þá myndi ég ráðleggja þér að gera einungis hluti sem þú ert örugg með að framkvæma og setja þig ekki í áhættu að falla úr hárri lofthæð. Nota skal ávallt öruggann búnað við klifur og þegar lengra er liðið á meðgönguna þarf að passa að hann þrengi ekki að vaxandi legi. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.