Nálafóbía á meðgöngu
Góðann dag,
Ég og konan mín eigum von á okkar fyrsta barni og komið er að blóðprufu. Hún er með alveg rosalega fóbíu fyrir nálum, læknar hafa sagt við okkur að þeir hafi aldrei séð annað eins. Við fórum í morgun og ætluðum að fara í blóðprufu en það endaði á því að hún bara fór í þvílíkann hnút og labbaði hálfgrátandi út. Hún er ekki hrædd við sársaukann, það er nálin sem að hræðir hana. Er einhver lausn við þessu? Er hægt að sleppa þessari blóðprufu? Ég sé ekki fram á að hún muni ná þessu á meðan að meðgöngu stendur þar sem hún er mikið tilfinningameiri og það gildir líka um þessa nálafóbíu. Ég veit að það er verið að skoða mikilvæga hluti og fá blóðflokkinn hennar með þessari prufu, en eins og ég segi… Ég sé ekki fram á að hún muni fara í þessa prufu.
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Varðandi allar skimanir á meðgöngu er þetta val verðandi foreldra og hvetjum við öll að upplýsa sig um tilgang skimana og rannsókna á meðgöngu áður en tekin er sú ákvörðun að þiggja eða ekki. Ef blóðprufan er eitthvað sem þið hafið áhuga að þiggja hvet ég ykkur að ræða við ljósmóður ykkar í meðgönguvernd um mögulega úrræði. Hef fulla trú að hægt sé að finna út úr þessu með ykkur. Gangi ykkur sem allra best.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.