Slímtappinn

12. janúar 2025

Slímtappinn minn var að fara, er líklegt að fæðingin sé að fara af stað?

Takk fyrir fyrirspurnina,

Slímtappinn er líkt og nafnið gefur til kynna, eiginlegur tappi úr hvítu/glæru slími sem situr í leghálsinum. Hann verndar bæði legið og barnið fyrir bakteríum og mögulegum sýkingarhættum. Sjá má mynd hér. Hann myndast vegna hormónabreytinga á meðgöngu.

Slímtappinn getur losnað þegar líkaminn byrjar að gera sig tilbúin fyrir fæðingu, þegar leghálsinn er að þynnast og opnast. Þó þarf það ekki að gefa til kynna að fæðingin sé að hefjast strax. Getur verið nokkrar klukkustindir eða nokkrar vikur í að fæðingin sjálf hefjist þrátt fyrir að slímtappinn sé að losna.

Það er mismunandi hvort hann losni í heilu lagi eða í hlutum. Þess vegna taka ekki allar eftir því þegar hann losnar. Yfirleitt losnar hann eftir 37 vikna meðgöngu eða í kringum settan dag.

Upplýsingar um upphaf fæðingar má lesa hér.

Kær kveðja, Elfa Lind Einarsdóttir, ljósmóðir.