Tíð þvaglát snemma á meðgöngu
Ég er að vakna á nóttunni alveg í spreng, fer á klósettið og er samt frekar lengi að byrja að pissa en engir verkir þegar ég pissa. Ég er gengin 13 vikur, er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af, t.d. blöðrubólga eða eitthvað slíkt?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina,
Flestar konur finna fyrir auknum þvaglátum á fyrstu vikum meðgöngu. Það er aðallega vegna þess að blóðflæði í nýrum eykst um 35-60%. Þetta aukna blóðflæði eykur þvagframleiðslu nýrnanna um 25%. Í flestum tilvikum eru þessi auknu þvaglát á 9.-16. viku meðgöngu en minnka síðan.
Ef þú er gjörn á að fá þvagfærasýkingu eða ert með önnur einkenni þvagfærasýkingar ráðlegg ég þér að hafa samband við þína heilsugæslustöð og fá að senda inn þvagsýni til að útiloka þvagfærasýkingu.
Algengustu einkenni þvagfærasýkingar eru:
- Sviði við að pissa
- Bráð þörf til að pissa
- Pissar oftar en venjulega
Önnur einkenni geta verið til staðar svo sem:
- Verkur yfir lífbeini
- Þrýstingur yfir lífbeini
- Sterk lykt af þvagi
- Gruggugt eða dökklitað þvag
Gangi þér vel.
Bestu kveðjur, Ilmur Björg Einarsdóttir, ljósmóðir.