Þungunarpróf

Þungunarpróf

Þungunarpróf mæla styrk þungunarhormónsins hCG í þvagi. Framleiðsla þess byrjar þegar frjóvgað egg hefur tekið sér bólfestu í legveggnum, en það gerist yfirleitt innan við viku frá getnaði. Eftir það tekur um 7-10 daga að byggja upp nægilegan styrkleika til þess að þungunarprófið nemi hormónið í þvaginu.

Misjafnt er hversu næm þungunarprófin eru, en flest nema hormónið við 10-25 mIU/ml. Til þess að fá sem marktækasta niðurstöðu ætti nota fyrsta morgunþvag og taka prófið í vikunni eftir að næstu tíðir eru áætlaðar, þá ætti hCG að vera komið upp í þennan styrkleika. Sum þungunarpróf eru auglýst sem snemmtæk og að hægt sé að taka þau allt að 4 dögum fyrir áætlaðar tíðir, en flest próf eru ekki 99% nákvæm fyrr en 1 degi eftir áætlaðar tíðir.

Niðurstöður þungunarprófa geta birst sem línur, litur eða merki. Sum stafræn próf segja einfaldlega „pregnant“ (ólétt) eða „not pregnant“ (ekki ólétt). Mikilvægt er að lesa leiðbeiningar vel til að vera viss um að þú takir prófið rétt og til að vita hvernig túlka eigi niðurstöðuna.

Fáir þú jákvæða niðurstöðu ertu ólétt, sama hversu dauf línan, liturinn eða merkið er. 

Fáir þú neikvæða niðurstöðu ertu líklegast ekki ólétt, þú gætir þó verið ólétt ef prófið sem þú tókst er útrunnið, þú tókst prófið ekki á réttan hátt, þú tókst prófið of snemma eða ef þvagið þitt er útþynnt því þú drakkst mikinn vökva áður en þú tókst prófið.

Fáir þú neikvæða niðurstöðu getur þú prófað að taka annað próf eftir 3-7 daga.

Valmynd