Ljósmóðir.is notar vafrakökur til að bæta notendaupplifun og stuðla að frekari þróun heimasíðunnar.
Upplýsingar um vafrakökur
Hæhæ, Ég er gengin tæplega 18 vikur og hef síðastliðnar tvær vikur sirka verið að drekka sellerídjús alla daga. Ég fór svo að hugsa hvort það væri ekki alveg öruggt á meðgöngu?
Sæl, það er í lagi að borða sellerí á meðgöngu og um að gera að borða vel af grænmeti á meðgöngu.
Kær kveðja, Hafdís Guðnadóttir, ljósmóðir.
Hæhæ, ég hætti á pillunni í byrjun des 2020 og fór á blæðingar ca 15. des (tíðahringur var 32 dagar áður en ég byrjaði á pillunni) en 30. Des fór ég á stafinn og vissi ekki að það þurfi að nota smokk í viku eftir ísetningu. Ég var ekki skynsöm og stundaði óvarið kynlíf reglulega frá tímanum sem eg hætti á pillunni þar til 1. jan 2021. Ég var að spá, þótt ég sýni engin einkenni (nema þreytu og svipaða verki og túrverki í baki sem ég er ekki vön að fá) gæti ég orðið ólett svona stuttu eftir að ég hætti á pillunni og hvort ég ætti að taka óléttupróf. Ef svo er, hvenær ætti ég þá að taka test ef ég veit ekki hvenær næstu blæðingar eiga að byrja?
Sæl, þú getur hafa fengið egglos á þessum tíma og því er möguleiki á þungun. Það væri skynsamlegt að taka þungunarpróf, þú getur miðað við að taka það u.þ.b. tveimur vikum eftir að þú stundaðir óvarið kynlíf.
Góðan dag. Ég er komin 11 vikur á leið og finn strax fyrir verkjum/þreytu í mjóbaki. Eru einhver góð ráð fyrir því? Má t.d. fara í kaldan pott til að kæla bakið? Má líka taka Magnesíum og Kalk töflur? Bkv.
Sæl, hér á síðunni eru ýmis ráð við verkjum í baki, mjóbaki og grind. Sjá hér.
Áhrif kaldra potta hafa ekki verið rannsökuð á meðgöngu, því get ég ekki kvatt til þess og höfða til almennrar skynsemi. Sértu ekki vön þeim myndi ég ráðleggja þér frá því að byrja á því á meðgöngu.
Þú mátt taka magnesíum og kalk svo lengi sem þú ferð ekki yfir ráðlagðan dagsskammt, fyrir þungaðar konur er það 280 mg af magnesíum og 900 mg af kalki.
Sæl, Við erum búin að reyna að verða þunguð í nokkra mánuði en það hefur ekki enn tekist. Við reynum að fylgja flestum ráðum sem eru gefin, t.d. inntaka á fólinsýru og D-vítamíni ásamt því að lifa heilbrigðum lífstíl. Við erum ekki enn farin að örvænta, en viljum gera allt sem við getum til að auka líkurnar á þungun. Við fylgjumst með einkennum eggloss en eitt af því sem ég hef tekið eftir er að ég hef áhyggjur af því að gæði legslíms í leghálsi séu ekki nógu góð fyrir sæðið, miðað við það sem ég les mér til um. Ég hef fundið ýmsar upplýsingar á netinu t.d. um sérstakt fæði sem er talið virka, en ég vil helst fá ráð frá fagaðila. Eitt af því sem ég fann voru þræðir þar sem einhverjir sögðu Tússól hafa virkað, en það er hætt í sölu á Íslandi. Hafið þið einhver ráð hvað maður getur gert til að bæta gæði legslímsins til að auka líkur á þungun? Ég vil taka það fram að ég hef pantað tíma hjá kvensjúkdómalækni en það er yfir hálfs árs biðtími svo tíminn er ekki fyrr en í júní og því leita ég ráða hér.
Sæl, þið virðist vera að fylgja þeim ráðleggingum sem við höfum til þess að eiga sem mestan möguleika á þungun. Hvað varðar slímhúð legsins þá hef ég ekki aðrar leiðbeiningar en þær að huga að heilbrigðum lífsstíl, en ég veit til þess að t.d. sérfræðingar í nálastungum hafa veitt meðferðir með það að leiðarljósi að undirbúa slímhúð legsins sem best fyrir frjóvgað egg.
Góðan dag, Má borða ,,venjulegan" ís úr ísbúð á meðgöngu? Er það bara heimatilbúni ísinn sem ber að forðast vegna hrárra eggja? Bestu kveðjur, Hrafnhildur
Já það ætti að vera í lagi að borða ís úr ísbúð á meðgöngu. Allur ís sem seldur er í venjulegum ísbúðum og úti í búð er gerður úr gerilsneyddum eggjum og því ekkert til að hafa áhyggjur af. Ís sem búin er til heima er einnig oft búinn til úr gerilsneyddum eggjum og er þá í lagi að borða hann líka.
Kær kveðja, Jóhanna María Friðriksdóttir, ljósmóðir
Góðan dag, Mig langaði að athuga hvort það væri öruggt að nota húðdropana frá íslenska merkinu Bio Effect á meðgöngu. Á heimasíðunni þeirra eru þessi innihaldsefni listuð upp: GLYCERIN, WATER (AQUA), SODIUM HYALURONATE, TROMETHAMINE, SODIUM CHLORIDE, BARLEY (HORDEUM VULGARE) SEED EXTRACT, EGF (BARLEY SH-OLIGOPEPTIDE-1) Með fyrirfram þökk, Sigrún
Sæl Þetta eru þær upplýsingar sem BioEffect gefur út varðandi notkun á meðgöngu;
BIOEFFECT EGF SERUM húðdroparnir innihalda engin efni sem eru á listum yfir innihaldsefni í húðvörum sem ber að varast á meðgöngu. Að auki eru öll innihaldefni BIOEFFECT EGF SERUM dropanna lögleg efni í snyrtivörum skv. tilskipun Evrópusambandsins nr. EC No 1223/2009. Það hafa þó engar sérstakar rannsóknir verið gerðar á notkun BIOEFFECT EGF SERUM húðdropanna á meðgöngu. Við ráðleggjum ófrískum konum að ráðfæra sig við lækni áður en þær hefja notkun á BIOEFFECT EGF SERUM húðdropunum.
Það ætti því að vera óhætt að nota dropana á meðgöngu.