Sængurlega

Yfirleitt er miðað við að sængurlegutímabilið séu fyrstu sex vikurnar eftir fæðingu barns. Áherslur í sængurlegu hafa breyst mikið á síðustu áratugum. Hér áður fyrr lágu konur í um það bil viku á sjúkrahúsi eftir fæðingu. Ekki var lögð mikil áhersla á samveru móður og barns og makar voru heima en máttu kíkja í heimsókn á kvöldin. Brjóstagjöf var hagað eftir klukkunni en ekki að þörfum barnsins.  Í dag er mikil áhersla lögð á sólarhringssamveru barns og foreldra. Barnið fær að stýra ferðinni í brjóstagjöfinni og aðgangur barns að brjóstinu á að vera ótakmarkaður. Stefnt er að útskrift í heimaþjónustu ljósmóður eins fljótt og mögulegt er.

Hraustar konur sem fætt hafa eðlilega án fylgikvilla geta farið heim af fæðingarstað fjórum klukkustundum eftir fæðingu ef móður og barni heilsast vel. Sumar konur einkum þær sem eru að eignast sitt fyrsta barn vilja stundum vera aðeins lengur til að fá hjálp við brjóstagjöfina. Algengt er að hraustar frumbyrjur fari heim um það bil hálfum til einum sólarhring eftir fæðingu. Hraustar konur sem hafa gengið undir keisaraskurð án fylgikvilla geta farið heim tveim sólarhringum eftir fæðingu heilsist þeim og barninu vel. Börn mæðra, sem hafa verið með sykursýki á meðgöngunni, þegar legvatn hefur verið farið lengi, móðirin verið með hita í fæðingunni eða móðirin er þekktur GBS beri, þarfnast eftirlits í allt að sólarhring eftir fæðinguna og ef allt hefur gengið vel þá geta þau farið heim. Ýmis frávik geta komið upp fyrsta sólarhringana eftir fæðingu en geta móðir og barn dvalist allt að 72 tíma á sjúkrahúsi ef þörf er á en samt fengið heimaþjónustu ljósmóður eftir útskrift.

Sængurlegan einkennist af miklum breytingum á líkama móðurinnar og lífi foreldranna. Líkamlegar breytingar á sængurlegutímabilinu verða meðal annars á brjóstum, þvagfærum, grindinni og leginu sjálfu. Líðan móður eftir fæðingu getur verið mjög misjöfn. Sú líðan fer eftir mörgum þáttum, bæði andlegum og líkamlegum. Sennilega hefur fæðingarmátinn (keisari/fæðing um leggöng) og hvernig fæðingin hefur gengið hvað mest áhrif á líðan móður. Aðrir þættir eins og hvernig líðan á meðgöngu var, hvíld og upphaf brjóstagjafar geta einnig haft mikil áhrif.

September 2018
Valmynd