Hvenær má fara út með barnið?

Algengt er að fólk spyrji hvenær megi fara út með barnið. Í þeim efnum er best að fylgja eigin hyggjuviti og fara eftir almennri skynsemi. Einu sinni var miðað við að börnin væru orðin 4 kg eða búin að bæta 500 grömmum við fæðingarþyngd áður en þau færu út í vagn. Í dag er frekar reynt að meta aðstæður hverju sinni. Gott er að velja dag til að fara í fyrstu gönguferðina þegar ekki er mjög kalt eða hvasst úti. Best er að byrja á styttri göngutúrum og lengja svo smám saman.  Nýfædd börn hafa ekki mjög góða hitastjórnun og þeim getur auðveldlega orðið bæði of heitt og of kalt, því getur oft verið erfitt að finna föt sem henta hverju sinni en smám saman læra foreldrar inná sitt barn og hversu lítið eða mikið þarf að klæða það eftir aðstæðum. Þegar ferðast er í bíl er mikilvægt að passa að nýburinn sé vel festur bæði í stólinn og í bílinn. Mikilvægt er að barnið sitji ekki í keng með hökuna niðri í bringu. Í þeirri stellingu getur súrefnismettun þess fallið. Ágætt er einnig að hafa í huga að fara ekki með börn undir þriggja mánaða aldri í margmenni eins og í verslunarmiðstöðvar að óþörfu þar sem ónæmiskerfi þeirra er viðkvæmt.

  Október 2018

Valmynd