Næring

Matur á meðgöngu

Konur þurfa ekki sérfæði þótt þær eigi von á barni. Venjulegur matur, fjölbreyttur og hollur, fullnægir bæði þörfum barnsins og móðurinnar með fáeinum undantekningum. Barnshafandi konum er til dæmis ráðlagt að taka B-vítamínið fólínsýru í töfluformi (400 míkrógrömm) og gæta þess að borða fólatríkar matvörur til þess að minnka líkur á fósturgalla. Eins ættu konur að taka D-vítamín aukalega (600 IU). D-vítamín má fá með því að taka krakkalýsi eða D vítamín töflur. Athugið að sumar konur gætu þurft stærri skammta af D vítamíni.

Þörf fyrir járn eykst á meðgöngu. Ráðlagt er að huga að járnríkum matvælum, það er rauðu kjöti, dökkgrænt grænmeti, morgunkorn, gróf korn og fleira. C-vítamín aðstoðar líkamann með upptöku járns en það nýtist verr ef mjólk er neytt samhliða. Fylgst er með járnbirgðum á meðgöngu og sumar gætu því fengið ráðleggingar að taka inn járntöflur.

Einnig eykst þörf fyrir joð á meðgöngu og fæst joð aðallega í fiski (ýsu og þorski) og mjólkurvörum. Joð er nauðsynlegt fyrir taugaþroska barnsins í móðurkviði. 

Rétt meðhöndlun matvæla er sérstaklega mikilvæg á meðgöngu og hráan fisk og hrátt kjöt ætti að forðast á þessum tíma. Jafnframt er æskilegt að takmarka koffein við það sem samsvarar einum til tveimur kaffibollum á dag.

Mataræðið skiptir miklu máli fyrir líðan og heilsu móðurinnar og heilbrigt líferni stuðlar að hæfilegri þyngdaraukningu á meðgöngu.

Bæklingar

Uppfært september 2023

Valmynd