Fósturlát

Fósturlát á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar


Fósturlát verður í um 15 til 20% staðfestra þungana og er talið að um þriðja hver kona missi fóstur einhvern tíma á lífsleiðinni.  Þar sem fósturlát er frekar algengt er ekki talin ástæða til að rannsaka orsök fósturlátsins fyrr en að kona hefur misst fóstur þrívegis. Algengasta ástæða fósturláts er einhvers konar fósturgalli sem veldur því að fóstrið er ekki lífvænlegt.  Aðrar ástæður geta verið galli í fylgjuvef eða sjúkdómur hjá móður. Einkenni fósturláts geta verið augljós eins og blæðing, samdráttarverkir og minnkuð þungunareinkenni. Fósturlát getur einnig verið án einkenna eða lítil einkenni til staðar og er þá talað um dulið fósturlát sem greinist þá við óm- eða læknisskoðun.  Eftir að fósturlát hefur verið staðfest fer meðferðin eftir lengd meðgöngu, einkennum og óskum konu. Möguleiki er á því að bíða eftir að legið tæmi sig sjálft eða taka lyf sem flýta þá fyrir því að legið tæmi sig. Einnig kemur til greina að tæma legið með aðgerð.

Andleg áhrif fósturláts er mismunandi hjá hverjum og einum og er því mikilvægt að geta leitað til maka eða trúnaðarvins.  Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það eru hverfandi líkur á því að það sé eitthvað sem gerðist á meðgöngunni sem valdi fósturlátinu.

Blæðing frá leggöngum á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar er hins vegar algeng og getur verið meinlaus. En þar sem blæðing getur verið merki um yfirvofandi fósturlát eða jafnvel þungun utan legs er alltaf ástæða til að leita ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki.
Utanlegsþungun er þungun utan legs og er algengast að hún sé til staðar í eggjaleiðurunum. Utanlegsþungun er ekki lífvænleg og getur ógnað lífi og heilsu móður. Fróðleiksmoli Heilsugæslunnar um blæðingu á fyrsta þriðjungi meðgöngu.