Heimaþjónusta ljósmæðra

Heimaþjónusta ljósmæðra

Heimaþjónusta í sængurlegu er í boði fyrstu 10 dagana eftir fæðingu. Mismunandi er eftir byggðarlögum hvort þar er ljósmóðir sem veitir slíka þjónustu og er verðandi mæðrum/foreldrum bent á að leita sér upplýsinga í sínu byggðarlagi hafi þau áhuga á slíkri þjónustu.

Konur sem fara í heimaþjónustu þurfa að fara heim 6-36 tímum eftir fæðingu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Ákveðnar vinnuleiðbeiningar hafa verið gerðar, um skilyrði þess að geta farið í heimaþjónustu, til að tryggja öryggi móður og barns. Móðir og barn þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Móðir

 • Meðgöngulengd 37–42 vikur.
 • Blóðþrýstingur, hiti og púls innan eðlilegra marka.
 • Leg dregst vel saman og hreinsun/blæðing eðlileg.
 • Konan hefur haft þvaglát eftir fæðinguna.
 • Blæðing í fæðingu er innan við 800 ml.
 • Niðurstöður naflastrengsblóðs frá nýbura mæðra sem eru Rhesus neikvæðar liggur fyrir og hefur verið fylgt eftir.
 • Ásættanlegar félagslegar aðstæður, konan á samastað og getur leitað eftir stuðningi í nánasta umhverfi.
 • Er sjálfbjarga um daglegar athafnir.
 • Er í andlegu og líkamlegu jafnvægi.

Barn

 • Apgar barnsins við 5 mín. var 7 eða meira.
 • Þyngd barnsins er innan eðlilegra marka miðað við meðgöngulengd.
 • Áður en barn er útskrifað skal tryggt að skimun fyrir alvarlegum heilsufarsvandamálum hafi farið fram.
 • Coombs-próf hjá barni neikvætt (á einungis við ef móðir hefur verið með mótefnamyndun í blóði).
 • Fylgst hefur verið með því að barn hafi nærst og útskilið án vandræða.
 • Ef barn er á brjósti þarf móðirin að geta lagt barnið á brjóst án aðstoðar.
 • Ef barn er á pelagjöf þurfa foreldrar hafi fengið fræðslu um pelagjöf og helstu öryggisþætti um hreinlæti, blöndun og hitun þurrmjólkur.

Í völdum tilfellum geta konur útskrifast í heimaþjónustu þrátt fyrir frávik frá þessum viðmiðum. Öll frávik frá þessu þarf að meta hvert fyrir sig í samráði við fæðingarlækni, ljósmóður og barnalækni. Dæmi eru um að mæður sem hafa verið með börn á vökudeild hafa fengið heimaþjónustu þó barn þeirra sé innlagt á vökudeild.

Landlæknisembættið hefur gefið út faglegar leiðbeiningar fyrir heimaþjónustu ljósmæðra en þar er að finna nánari upplýsingar.

Á Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH er boðið upp á sólarhringssamveru foreldra/forráðamanns og barns eftir fæðingu. Á Meðgöngu- og sængurlegudeild getur móðir fengið að dvelja í allt að 24 klst. ásamt barni sínu og barnsföður eða öðrum aðstandanda. Ef ástæða þykir til geta konur dvalist í allt 72 tíma á deildinni, t.d. þegar konan hefur fætt með keisaraskurði. Barnsfaðir eða aðstandandi þarf að greiða fyrir „fæði og húsnæði" en ekki þarf að greiða fyrir móður og barn.

Á öðrum sængurlegudeildum á landinu getur móðir fer allt eftir aðstæðum á hverjum stað hvort faðir eða annar aðstandandi getur dvalið á sjúkrahúsinu með móður og barni.

Upplýsingar um ljósmæður sem taka að sér heimaþjónustu er að finna á Ljósmæðrarfélags Íslands.

Uppfært 19. júní 2015