Fæðingin

Fæðing er stór stund í lífi fólks og þegar að nýtt barn er komið í heiminn verður lífið aldrei aftur eins. Eðlileg meðgöngulengd er 37 - 42 vikur og barn sem fæðist á þeim tíma telst vera fullburða. Langflestar konur fara sjálfar af stað í fæðingu einhvern tímann innan þessa tímaramma. Á Íslandi fá konur tíma í gangsetningu eftir að vika 41 er fullgengin eða fyrr ef ástæða er til gangsetningar fyrir þann tíma. Það er gott að vera meðvituð um það að fleiri konur fara fram yfir settan dag en ekki. Það getur verið krefjandi að ganga langt fram yfir settan dag en þá er gott muna að settur dagur er bara viðmið og ekki er óeðlilegt að ganga með barnið allt að tveim vikum framyfir þann dag. Talið er að einungis 5% barna fæðist á settum degi. Tæplega 7% barna á Íslandi fæðast fyrir 37. viku meðgöngunnar og eru fyrirburar. Ekki er alveg vitað með vissu hvað það er sem kemur fæðingu af stað en það virðist vera flókið samspil móður og barns sem ræður þar um. Ein kenning er sú að þegar barnið hefur fullþroskað á sér lungun byrji það að seyta prótínum sem síðan valda því að fæðingin fer af stað.

Upphaf fæðingar lýsir sér þannig að legið byrjar að draga sig saman líkt og það gerir oft undir lok meðgöngu hjá mörgum konum. Samdrættir lýsa sér þannig að kúlan harðnar í smástund en spennan líður svo úr. Þegar fæðingin fer af stað byrja samdrættirnir að verða sterkari og reglulegir. Þá byrjum við að tala um hríðar. Margar konur kvíða sársaukanum sem getur fylgt fæðingarhríðunum en þá er gott að hafa í huga að hríðarnar hafa eingöngu þann tilgang að koma barninu í heiminn. Þær stafa ekki af sjúklegu ástandi og eru ekki hættulegar á nokkurn hátt, ólíkt öðrum sársauka. Í fæðingu spila hormónin oxýtósin, adrenalín og endorfín saman og hjálpa konunni að takast á við hríðarnar. Hið síðastnefnda, endorfín, er náttúrulegt verkjalyf skylt morfíni, sem líkaminn framleiðir þegar hann er undir miklu álagi og eykst styrkur þess í blóði eftir því sem líður á fæðinguna. Í eðlilegri fæðingu sem fer sjálkrafa af stað stýra hin fyrrnefndu hormón fæðingarferlinu. Flæði þessara hormóna getur auðveldlega truflast af áreiti í umhverfi og inngripum í fæðinguna. Öllum inngripum fylgir hætta á frekari inngripum og þar með aukinni hættu á verri útkomu fyrir móður og barn. Þess vegna er mikilvægt að sterkar ábendingar séu fyrir inngripum í fæðingarferlið. Stór hluti af starfi ljósmæðra og lækna sem sinna konum í fæðingu er að meta hvort þörf sé á inngripum eður ei. Fyrirsætur fósturhluti, oftast kollurinn á barninu en getur líka verið sitjandinn, þrýstir á leghálsinn. Þegar legið dregst saman ýtist barnið neðar í fæðingarveginn og leghálsinn styttist og opnar sig. Leghálsinn er neðsti hluti legsins og þegar hann styttist og opnast breytist lögun legsins þannig að legbotninn sem er efsti hluti legsins þykknar og verður þannig nógu sterkur til að ýta barninu út. Eftir fæðingu barnsins á svo fylgjan eftir að fæðast og þegar að fylgjan er komin þá er fæðingunni lokið.

Valmynd