Andvana fæðing
Andvana fæðing er þegar barn fæðist andvana eftir 22. viku meðgöngu eða með þyngd ≥500g. Þrátt fyrir að ástæður séu oft óþekktar geta sjúkdómar eða fylgikvillar á meðgöngu verið orsakir. Foreldrar fá stuðning frá ljósmæðrum og heilbrigðisstarfsfólki til að skapa minningar með barninu, t.d. með því að sjá barnið, taka myndir og gefa því nafn. Félagið Gleym mér ei veitir stuðning eftir missi.

Á Íslandi er notast við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um börn sem fædd eru andvana. Barn sem deyr í móðurkviði eða í fæðingu er sagt hafa fæðst andvana eigi það sér stað eftir 22. viku meðgöngu eða ef fæðingarþyngd þess er ≥500gr. Miðað er við fæðingarþyngd ef meðgöngulengd er óþekkt. Andvana fæðingar eru um það bil ein af hverjum tvö hundruð fæðingum.
Þegar foreldrar missa barnið sitt í móðurkviði eða í fæðingu er mjög algengt að fyrsta sem kemur upp í kollinn sé hvers vegna? Af hverju kom þetta fyrir? Hvað gerðist? Fyrstu viðbrögð mæðra geta jafnvel verið sjálfsásökun, að þær hljóti að hafa gert eitthvað sem hafi skaðað barnið. Þess bera að geta að nánast aldrei er skýringanna að leita í atferli eða gjörðum móðurinnar. Til eru sjúkdómar sem koma upp hjá barni á fósturskeiði, sjúkleiki í fylgju sem leiða til dauða barns eða vanþroski fylgju og naflastrengs. Einnig koma fyrir slys í móðurkviði þar sem klemma verður á naflastreng en þau eru sjaldgæf. Alvarlegir sjúkdómar móður sem hafa áhrif á vöxt og þroska fósturs geta einnig verið mögulegar ástæður. Stundum eru ástæður dauða barns augljósar um leið og hann greinist eða þegar barnið fæðist. Í öðrum tilvikum þarf að bíða niðurstöðu krufningar eða annarra rannsókna. Mjög oft finnst ekki skýring á dauða barns í móðurkviði.
Andvana fæðing er ekki frábrugðin öðrum fæðingum, konan fær þá verkjastillingu sem hún þarf og óskar eftir og ljósmæður og læknar gera sitt besta til að veita foreldrum og aðstandendum þann stuðning sem þau þurfa.
Fyrir fæðingu er yfirleitt búið að ræða við foreldra um hvenær og hvort þeir óska eftir að fá að sjá barnið sitt. Margir kvíða þeirri stundu en yfirleitt er um að ræða fallega og verðmæta stund foreldra með barninu sínu. Ljósmóðir styður foreldra í þeirri ákvörðun sem þeir taka. Foreldrar vilja ýmist fá barnið beint til sín í fang mömmu líkt og í öðrum fæðingum eða vilja að ljósmóðir búi fallega um barnið og þau fái það svo til sín. Barnið er svo vigtað og mælt auk þess sem tekið er handa- og fótafar sem foreldrar fá með sér heim. Það er mikilvægt að foreldrar taki sér þann tíma sem þeir telja sig þurfa til að kveðja barnið sitt og jafnvel fá til sín nánustu aðstandendur, foreldra sína og systkini og systkini barnsins svo þau geti fengið tækifæri til að sjá barnið, heilsa og kveðja. Til eru þeir foreldrar sem ekki vilja sjá barnið sitt og sú ákvörðun er virt, enda erum við öll mismunandi og hver og einn einstaklingur þarf að ákveða fyrir sig hvaða leið hentar honum.
Rannsóknir benda til þess að það hjálpi foreldrum að komast auðveldar í gegnum sorgarferlið ef þau skapa minningar með barninu sínu. Það er gert til dæmis með því að þau fái að baða barnið og klæða, taka myndir og myndbönd af því, halda á því, gefa því nafn og tala við það með nafni.
Ef foreldrar vilja stendur þeim til boða að fá til sín prest sem veitir þeim ráðgjöf varðandi kistulagningu og útför, kynnir fyrir þeim stuðningshópa fyrir foreldra sem misst hafa börn og bjóða uppá blessun í tengslum við nafngift barnsins.
Flestir foreldrar fara heim á fyrsta sólarhring eftir fæðingu og þiggja eftir það heimaþjónustu ljósmóður. Foreldrar hafa val um ljósmóður og geta óskað eftir að fá heim ljósmóður sem þau þekkja eða hafa áður hitt í barneignarferlinu. Á sængurlegutímabilinu fylgist ljósmóðir með bæði andlegri líðan foreldranna sem og líkamlegri. Konur geta fundið fyrir óþægindum í brjóstum vegna mjólkurmyndunar. Þá er ráðlagt að vera í klæðnaði sem styður vel við brjóstin, vera í brjósthaldara sem þrengja að brjóstunum. Þá geta kaldir bakstrar dregið úr óþægindum. Einnig getur verið gott að taka verkjalyf. Áður voru notuð lyf til að hindra mjólkurmyndun en þau eru sjaldan notuð nú til dags vegna óþægilegra aukaverkana.
Gleym mér ei er félag sem er til staðar fyrir þá sem verða fyrir missi á meðgöngu eða stuttu eftir fæðingu.