Mænurótardeyfing

Mænurótardeyfing í ákveðnum tilfellum er mjög gott hjálpartæki, sérstaklega þegar að fæðingin gengur ekki eðlilega fyrir sig. Hún getur hjálpað þreyttum mæðrum að hvílast og slaka á sem getur leitt til þess að fæðingin fari að ganga betur. Konum með vandamál tengd meðgöngu eins og meðgöngueitrun er gjarnan ráðlagt að þiggja mænurótardeyfingu.

Mænurótardeyfingu geta fylgt aukaverkanir. Þegar gripið hefur verið inn í ferlið með mænurótardeyfingu hægist oft á gangi fæðingar og rembingsstigið verður frekar lengra meðal annars vegna þess að grindarbotninn er dofinn og konan finnur síður rembingsþörf. Auk þess á konan oft erfiðara með að hreyfa sig þar sem fætur hennar geta dofnað og hún verður bundnari við rúmið en við það getur hægst enn frekar á fæðingunni.

Notkun mænurótardeyfingar eykur einnig líkur á því að fæðingin endi með áhaldafæðingu, sem sagt að barninu sé hjálpað út með sogklukku eða töngum. Brjóstagjöf getur farið verr af stað og staðið skemur en ella  þá sérstaklega ef fleiri inngrip eins og áhaldafæðing fylgja í kjölfarið. Rannsóknir hafa líka bent til að  deyfingin geti haft áhrif á aðlögun að móðurhlutverkinu og tengslamyndun. Fleiri mögulegar aukaverkanir eru t.d. blóðþrýstingsfall, þvagteppa, hiti í fæðingu og höfuðverkur eftir fæðingu. Brugðist er við aukaverkunum með frekari inngripum eins og hríðaörvandi lyfjum sem auka líkur á blæðingu eftir fæðingu, vökvagjöf í æð, uppsetningu þvagleggs, notkun sýklalyfja og fleira. Mænurótardeyfing eykur ekki líkurnar á að ljúka þurfi fæðingu með keisaraskurði. Þó eru keisaraskurðir vegna fósturstreitu algengari eftir að mænurótardeyfing hefur verið lögð (Smyth og Jones, 2011).

Þó er mikilvægt að hafa í huga að þetta eru aukaverkanir sem sumar eru líklegri til að koma fram því lengur sem konan hefur deyfinguna og þær koma alls ekki alltaf fram. Jafnframt virkar deyfingin ekki alltaf sem skyldi og benda rannsóknir til að upplifun kvenna sem fæða með deyfingu sé ekki endilega betri en þeirra sem fæða án hennar. Stundum vega kostirnir við deyfinguna meira en hugsanlegir gallar og því er hún oft kærkomin. Aðrar meðferðir eins og notkun djúpöndunar, vatns, nudds, vatnsbóla, nálastungna og glaðlofts geta hjálpað konum að takast á við hríðarnar en aukaverkanir þeirra eru oftast minni háttar. Sjá nánar á í bæklingaröðinni.



Anim-Somuah M, Smyth RMD, Jones L. Epidural versus non-epidural or no analgesia in labour. Cochrane Database of Systematic Reviews 2011, Issue 12. Art. No.: CD000331. DOI: 10.1002/14651858.CD000331.pub3


Valmynd