TENS

Áhugi fyrir því að nota TENS sem verkjameðferð í fæðingu hefur notið aukinna vinsælda hérlendis. En hvað er TENS?

TENS er raförvun sem berst um húð frá blöðkum sem límdar eru á þann stað sem á að verkjastilla. Blöðkurnar eru yfirleitt staðsettar neðarlega á baki sitthvoru megin við hrygginn, tvær hvoru megin.

TENS tæki gefur raförvun í gegnum blöðkurnar sem hafa þann tilgang að fylla taugakerfið af boðefnum. Því fleiri boð sem taugakerfið móttekur frá TENS tækinu því færri boðum tekur taugakerfið á móti vegna samdráttarverkja. Með þessu er vonast eftir því að einstaklingur upplifi verki af völdum samdrátta ekki eins sára. TENS tækið hvetur líkamann til að framleiða hormónið endorfín sem virkar sem náttúruleg verkjastilling.

Eftir að TENS tækið hefur verið tekið í notkun er hægt að auka tíðnina í rafboðum á meðan á hríð stendur með því að ýta á takka þegar hríð hefst og þegar henni lýkur. Mörg hafa greint frá því að TENS tæki aðstoði við að upplifa sig við stjórn í fæðingunni.

TENS tækin geta virkað vel í útvíkkunartímabilinu og er hægt að nota samhliða öðrum verkjastillingum. Þó þarf að taka tækin af sér ef einstaklingur ætlar í bað eða sturtu.

Hægt er að leigja TENS tæki og kaupa hérlendis. Við hvetjum einstaklinga til að kynna sér tækið fyrir notkun og vera búin að læra á það fyrir fæðingu.