Feður/makar

Feður/Makar

Líkamlegar og andlegar breytingar

Að verða foreldri er stór breyting í lífi hvers einstaklings. Makar geta rétt eins og hinn barnshafandi einstaklingur, fundið fyrir miklum breytingum á meðgöngunni, bæði líkamlega og andlega. Þetta kemur mörgum í opna skjöldu. Flestir finna fyrir tilhlökkun og spennu en tilfinningar og hugsanir gagnvart þunguninni geta verið mismunandi. Makar geta fundið fyrir kvíða og geta hugsanir um praktísk atriði eins og fjármál, húsnæði, bíl, vinnu og fæðingarorlof valdið áhyggjum. Það kviknar gjarnan meiri ábyrgðartilfinning gagnvart heimilinu, konunni og stækkandi fjölskyldu og geta þessar tilfinningar verið yfirþyrmandi.

Líkamlegar breytingar eins og þyngdaraukning, meltingartruflanir, brjóstsviði, ógleði, minnkuð kynhvöt og ýmsir verkir eru meðal þess sem feður finna fyrir og er þetta algengara en talið hefur verið (Couvade syndrome). Ástæðurnar eru ekki að fullu þekktar en tengjast sennilega að mörgu leyti kvíða og áhyggjum.

Sumir makar finna fyrir einmannaleika og jafnvel afbrýðisemi þegar athygli konunnar beinist að miklu leyti að þeim breytingum sem eru að verða á líkama hennar. Konur hafa flestar þörf fyrir að finna að makinn sýni þessum breytingum athygli. Hinsvegar er þungunin og barnið oft óraunverulegt mökum þar til þeir heyra fyrst hjarstslátt, sjá barnið í ómskoðun eða finna spörkin og því getur verið erfitt fyrir þá að sýna meðgöngunni sama áhuga og konan á fyrstu vikunum.

Kynlíf breytist í flestum tilfellum eitthvað á meðgöngu. Fyrstu vikurnar eru margar konur mjög þreyttar, finna fyrir ógleði og hafa lítinn áhuga á að stunda kynlíf. Þetta getur aukið á einmannaleika makans. Líkamlegar breytingar sem verða á meðgöngunni geta ýmist virkað spennandi eða fráhrindandi fyrir makann. Maki getur einnig fundið fyrir minni áhuga á kynlífi á meðgöngunni. Tilhugsunin um að barnið sé þarna líka getur verið óþægileg og breytt útlit líkamans getur einnig truflað. Það er gott að ræða á nærgætinn hátt um þessar tilfinningar og finna saman lausnir sem henta báðum aðilum. Gott er að muna að konan getur verið ósátt við breytingarnar á líkama hennar og það að vita að makinn sé einnig ósáttur getur verið mjög særandi. Ef konan finnur fyrir minnkuðum áhuga eða getu til þess að stunda kynlíf er ekki þar með sagt að hún hafi ekki þörf á nánd og snertingu. Því er mikilvægt að halda áfram að taka utan um hana, kyssa, hrósa og tjá henni ást þína. HÉR má lesa meira um kynlíf á meðgöngu.

Hlutverk þitt sem maki

Makinn gegnir gríðarlega mikilvægum hlutverkum á meðgöngu, í fæðingu og í sængurlegu. Á meðgöngu er mikilvægt að sýna áhuga og vera góður stuðningsaðili. Það er gott að ræða við konuna um hennar líðan og hvað þú getur gert til þess að létta henni lífið. Einnig er mikilvægt að þið ræðið saman um þær breytingar sem eru að verða á lífi ykkar, tilfinningar ykkar og væntingar á heiðarlegan hátt. Það að ganga með barn veldur miklum líkamlegum breytingum og er algengt að finna fyrir mikilli þreytu og jafnvel pirringi. Þú sem maki getur þá jafnvel upplifað að nærveru þinnar sé ekki óskað eða að allt sem þú gerir sé ómögulegt en þá er einmitt mikilvægast að vera til staðar og hjálpa henni í gegnum þessi erfiðu tímabil. Fyrsti og síðasti þriðjungur meðgöngunnar er í flestum tilfellum meira krefjandi en annar þriðjungur. Á öðrum þriðjungi líður mörgum konum vel og líkjast sjálfum sér meira. Á þessum tíma getur þú farið að finna fyrir hreyfingum barnsins og barnið verður raunverulegra í þínum augum. Það er um að gera að njóta tímans, gera eitthvað skemmtilegt saman, fara í gönguferðir, stefnumót og annað. Einnig er þetta góður tími til að huga að ýmsum praktískum undirbúningi eins og til dæmis að útbúa barnaherbergi eða slíkt. Eftir því sem líður á meðgönguna verður erfiðara fyrir konuna að taka þátt í slíkum verkefnum.

Mikilvægt er að þú hjálpir til á heimilinu og sýnir stuðning. Dæmi um verk sem geta reynst konum erfið á meðgöngu eru:

 • Eldamennska, sérstaklega á fyrstu vikunum. Þegar konur þjást af ógleði eru meiri líkur á að þær hafi lyst á mat sem annar eldar. Einnig getur verið erfitt fyrir konur sem þjást af grindarverkjum að standa lengi við eldavélina
 • Þrif – Það er sérstaklega erfitt að skúra, sópa og ryksuga á meðgöngu
 • Bera þunga innkaupapoka eða annað þungt – þyngsli auka álag á mjaðmagrind
 • Að hætta að reykja. Það er mikilvægt að reyna að hætta reykingum þegar það á við. Sjá umfjöllun um reykingar HÉR

Það er mikið álag á líkamann að ganga með barn og getur gott nudd verið himnesk upplifun á þessum tíma. Þú gætir boðið upp á reglulegt nudd og getur það haft mjög jákvæð áhrif á sambandið, aukið nánd og upplifun konunnar um að þú hafir áhuga á meðgöngunni. Það er hægt að finna ýmsar leiðbeiningar um nudd fyrir barnshafandi til dæmis á youtube. Láttu renna í bað, eða útbúðu fótabað, kveiktu á kertum, hafðu nóg af púðum, rólega tónlist og góða nuddolíu og þá ættir þú að jafnast á við besta spa! Þetta er sérstaklega gagnlegt á þriðja þriðjungi en þá eru margar konur farnar að finna fyrir ýmsum verkjum, eiga erfitt með svefn og eru kannski farnar að finna fyrir áhyggjum af fæðingunni. Þá er gott að konan fái góða slökun og hvíld og geti róað hugann.  

Það er mikilvægt fyrir bæði þig og maka þinn að þú takir þátt í undirbúningi fæðingarinnar. Farðu með í meðgönguverndina, ómskoðanir og aðrar rannsóknir eins og hægt er. Það er bæði gagnlegt, fræðandi og styrkir tengslamyndun þína við barnið og þannig sýnir þú maka þínum jafnframt stuðning. Einnig er gott að vera saman ef eitthvað kemur upp í skoðunum.

Ýmis námskeið eru í boði fyrir verðandi foreldra og er mjög gott að fara saman á slík námskeið. Það getur einnig hjálpað ykkur að sjá fyrir ykkur hvernig þið viljið hafa fæðinguna, hvar þið viljið vera og svo framvegis. Þið getið æft saman öndun, nudd og annað sem getur nýst í fæðingunni.

Fæðing barnsins

Flestir makar vilja vera viðstaddir fæðingu barnsins síns. Það kemur þó fyrir að einstaklingar vilji ekki eða treysti sér ekki til þess. Það er mikilvægt að ræða þessar tilfinningar af hreinskilni við maka sinn og einnig getur verið gott að ræða þetta við ljósmóður í meðgönguvernd. Stundum er hægt að vinna með ástæður þessara tilfinninga og hjálpa einstaklingnum að takast á við þær. Annars þarf að finna lausn sem báðir aðilar eru sáttir við.

Það er ótrúleg reynsla að vera viðstaddur fæðingu barns síns. Það er mikilvægt að reyna að undirbúa sig ásamt makanum á meðgöngunni og er mjög gott að verðandi foreldrar ræði saman um það hvernig þeir vilja hafa umhverfið og annað. Það getur verið gott að skrifa saman óskalista þar sem farið er yfir þessi atriði. Þannig getur þú verið rödd konunnar í fæðingunni og hjálpað henni að koma sínum vilja og skoðunum til skila. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að þegar kemur að sjálfri fæðingunni geta hlutirnir orðið allt öðruvísi en þið voruð kannski búin að sjá fyrir ykkur. Konan vill kannski alls ekki láta snerta sig, hún vill mögulega allt aðra hluti en þið höfðuð rætt og gangur fæðingar getur verið annar en þið sáuð fyrir ykkur. Þá er mikilvægt að taka því ekki nærri sér og vera áfram til staðar. Stundum er nóg að vera bara hjá konunni en svo er einnig hægt að spyrja konuna eða ljósmóðurina hvort að þú getir eitthvað gert til að hjálpa. Í fæðingunni hverfa konur stundum inn á við og þá er mikilvægt að trufla þær ekki með spurningum heldur frekar hvísla að þeim hvatningu og ástarorðum. Fæðingunni er stýrt af samspilum hormóna sem getur truflast af ýmsum áreitum.

Fæðingin er oft mjög tilfinningaþrungin stund og er algengt að makinn gráti þegar barnið er komið í heiminn eða þegar hann heldur á barninu í fyrsta sinn. Það er algjörlega eðlilegt. Mörgum finnst barnið virka mjög brothætt og eru hræddir við að halda á því og óttast að geta ekki annast það en þú þarft eru óþarfa áhyggjur. Fáðu ljósmóðurina til að leiðbeina þér ef þú ert óörugg/ur.

Eftir fæðingu

Fæðingin getur tekið mikið á mæðurnar og þær þurfa oft dágóðan tíma til þess að jafna sig bæði líkamlega og andlega.

Í sængurlegu og þegar heim er komið eru hlutverk þín meðal annars að:

 • Styðja við brjóstagjöfina – Brjóstagjöfin er mikil vinna fyrir móðurina, sérstaklega fyrstu vikunnar. Öll hennar orka fer í hana og er mikilvægt að þú aðstoðir eins og hægt er. Passa upp á að hún nærist, hafi vatn við höndina, haldir áfram að sinna heimilisstörfum, elda mat o.s.frv.
 • Ef brjóstagjöf gengur ekki upp og barnið nærist af pela getur þú létt á með því að útbúa pela og skipst á við móðurina að gefa barninu.
 • Tengjast barninu – það er einnig mikilvægt fyrir þig að tengjast barninu á fyrstu vikunum og mánuðunum. Húð við húð snerting spilar þar stórt hlutverk.
 • Sinna þörfum barnsins – þannig tengistu barninu betur, lærir að þekkja það og það lærir að þekkja þig.
 • Stjórna heimsóknum – gæta þess að móðirin fái næga hvíld fyrstu vikurnar þegar brjóstagjöfin er að fara af stað og hún þarf að vakna oft á nóttunni. Mikilvægt er að hún geti lagt sig á daginn þegar barnið sefur. Seinna meir getur henni fundist hún einangruð, ein heima með barnið allan daginn og þá getur verið gagnlegt að hvetja vini og vandamenn til þess að kíkja í heimsókn (í samráði við móðurina). Einnig sniðugt að láta gesti “borga sig inn” með því að koma með mat, setja í þvottavél eða annað sem ykkur dettur í hug.
 • Gefa henni þann tíma sem þarf áður en þið byrjið að stunda kynlíf aftur

Áhugaverðar bækur:

 • Men, love & birth. Mark Harris, 2015
 • The Birth Partner: Everything You Need to Know to Help a Woman Through Childbirth.  Penny Simkin, 2001
 • The Expectant Father: Facts, Tips, and Advice for Dads-to-Be. Armin A. Brott og Jennifer Ash, 2010.
 • Fathers To Be Handbook. A Road Map for the Transition to Fatherhood. Patrick M. Houser
 • Pabbi – bók fyrir verðandi feður, Ingólfur V. Gíslason Útgefandi: Opna
 • Fyrstu mánuðirnir: ráðin hennar Önnu ljósu. Höfundar: Anna Eðvaldsdóttir, Sylvía Rut Sigfúsdóttir Útgefandi: BF

 

Uppfært í september 2018

Valmynd