Fósturlát
Fósturlát eru algeng og gerast í 15-20% staðfestra þungana, oft vegna fósturgalla. Þau skiptist í snemmkomin (fyrstu 12 vikur) og síðkomin (12.-22. vika). Blæðing á fyrstu vikum getur verið meinlaus, en þarf að skoða. Sorg er einstaklingsbundin og stuðningur er mikilvægur.
Fósturlátum er skipt í snemmkomin og síðkomin fósturlát. Með snemmkomnum fósturlátum er átt við þau sem verða á fyrsta þriðjungi meðgöngu, þ.e. fyrstu 12 vikum hennar en með síðkomnum fósturlátum er átt við þau sem verða eftir 12. viku og til og með 22. viku meðgöngu. Eftir 22. viku er talað um andvana fæðingu.
Algengi og ástæður
Fósturlát verður í um 15 til 20% staðfestra þungana og er talið að um þriðja hver kona missi fóstur einhvern tíma á lífsleiðinni. Þar sem fósturlát er frekar algengt er ekki talin ástæða til að rannsaka orsök fósturlátsins fyrr en að kona hefur misst fóstur þrívegis. Algengasta ástæða fósturláts er einhvers konar fósturgalli sem veldur því að fóstrið er ekki lífvænlegt. Aðrar ástæður geta verið galli í fylgjuvef eða sjúkdómur hjá móður.
Einkenni
Einkenni fósturláts geta verið augljós eins og blæðing, samdráttarverkir og minnkuð þungunareinkenni. Fósturlát getur einnig verið án einkenna eða lítil einkenni til staðar og er þá talað um dulið fósturlát sem greinist þá við óm- eða læknisskoðun. Eftir að fósturlát hefur verið staðfest fer meðferðin eftir lengd meðgöngu, einkennum og óskum konu. Möguleiki er á því að bíða eftir að legið tæmi sig sjálft eða taka lyf sem flýta þá fyrir því að legið tæmi sig. Einnig kemur til greina að tæma legið með aðgerð.
Andleg áhrif fósturláts er mismunandi hjá hverjum og einum og er því mikilvægt að geta leitað til maka eða trúnaðarvins. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að það eru hverfandi líkur á því að það sé eitthvað sem gerðist á meðgöngunni sem valdi fósturlátinu.
Blæðing frá leggöngum á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar er hins vegar algeng og getur verið meinlaus. En þar sem blæðing getur verið merki um yfirvofandi fósturlát eða jafnvel þungun utan legs er alltaf ástæða til að leita ráða hjá heilbrigðisstarfsfólki.
Utanlegsþungun er þungun utan legs og er algengast að hún sé til staðar í eggjaleiðurunum. Utanlegsþungun er ekki lífvænleg og getur ógnað lífi og heilsu móður. Fróðleiksmoli Þróunarmiðstöðvar um blæðingu á fyrsta þriðjungi meðgöngu.
Missir fósturs eða barns á meðgöngu, í fæðingu eða stuttu eftir hana hefur mikil áhrif á þá sem fyrir því verða. Slíkur missir getur kallað fram margvíslegar tilfinningar, allt frá létti til þrálátrar sorgar.
Sorgarviðbrögð við fósturláti, andvana fæðingu eða barnsmissi
Sorg er breytileg frá manni til manns. Hún er eðlileg viðbrögð við missi og er ferli sem þarf að eiga sér stað svo að manneskjan nái að aðlagast breyttum aðstæðum í lífi sínu. Sorgin sem fylgir missi á meðgöngu, í eða eftir fæðingu er sérstök að því leiti að foreldrar syrgja ekki einungis litla barnið sitt heldur einni framtíðarsýn sem þau höfðu hugsað um, talað um og gert ráð fyrir.
Nokkuð er um að sorgin sem fylgir missi á meðgöngu eða í/eftir fæðingu sé ekki eins viðurkennd og önnur sorg. Fjölskylda og vinir eiga erfitt með að átta sig á hvernig best er að styðja við syrgjandi foreldra og jafnvel reyna meðvitað eða ómeðvitað að þagga sorgina niður. Sem betur fer hefur opinber umræða um sorg vegna missis á meðgöngu, í fæðingu eða stuttu eftir hana, smá saman verið að aukast og eitt mikilvægasta innleggið í þá umræðu á síðari árum er stofnun stuðningssamtakanna Gleym mér ei.
Hafa ber í huga að upplifun einstaklinga af missi á meðgöngu, í eða eftir fæðingu er mjög mismunandi og einstaklingsbundin. Meðgöngulengd hefur ekki úrslitaáhrif á sorgarupplifun.