Lífstíll

Lífsstíll

Faraldsfræðilegar rannsóknir gefa til kynna að sumir lífsstílstengdir þættir hafi lítil, uppsöfnuð áhrif sem lengja tímann þar til pör ná að verða ólétt. Breytingar á þessum þáttum virðast auka frjósemi en það hefur ekki verið skoðað með slembirannsóknum. 

Tóbaksnotkun

Tóbaksnotkun kvenna og mögulega karla hefur verið tengd lægri frjósemi. Möguleg áhrif eru breytingar á eggjaleiðurum eða leghálsi, skemmdir á kynfrumum og aukin tíðni fósturláta og utanlegsfósturs. Rannsóknir hafa einnig tengt reykingar við ótímabæra tæmingu eggja úr eggjastokkum og ótímabæra öldrun eggjastokka um eitt til fjögur ár.

Rannsóknir gefa til kynna að hægt er að snúa þessari þróun við að mestum hluta innan árs frá því tóbaksnotkun er hætt.

Þyngd

Konur í yfirþyngd eða undirþyngd eru í aukinni hættu á minnkaðri frjósemi, ásamt öðrum heilsufarstengdum vandamálum. Áhrif þyngdar karla á frjósemi er hinsvegar óljós.

Flestar rannsóknir gefa til kynna að BMI yfir 27 eða undir 17 tengist aukinni hættu á truflun á egglosi og þar af leiðandi minni frjósemi. Jafnvel þó kona hafi reglulegt egglos virðist aukin þyngd tengjast minni líkum á sjálfkrafa þungun og auknum tíma þar til þungun verður.

Rannsóknir hafa sýnt að þyngdartap kvenna í ofþyngd auki tíðni eggloss og líkur á náttúrulegum getnaði. Hins vegar virðist þyngdartap ekki tengjast auknum líkum á þungun í hverjum tíðahring. Stór rannsókn sem gerð var á konum með BMI ≥29 kg/m2 og ófrjósemi sýndi engan mun á fæðingartíðni kvenna sem fengu sex mánaða þyngdartaps prógram fyrir ófrjósemismeðferð samanborið við konur sem fóru beint í ófrjósemismeðferð. Þær sem fengu þyngdartaps prógram voru hins vegar líklegri til þess að verða óléttar sjálfkrafa (án frjósemismeðferða) og þurftu færri meðferðir til þess að verða óléttar. Í rannsókn sem tók til 67 kvenna sem léttust um að meðaltali 10 kg á 6 mánuðum, fengu 90% þeirra sjálfkrafa egglos á ný, 52 þeirra urði óléttar og 45 þeirra eignuðust barn. Engin kvennanna í viðmiðunarhóp fengu egglos á ný eða urðu óléttar. Það virðist því vera til mikils að vinna fyrir konur í offitu að létta sig fyrir þungun.

Tengsl undirþyngdar og ófrjósemi varðar einnig truflun á egglosi, þó á annan hátt heldur en hjá konum í offitu. Hjá konum í undirþyngd, sérstaklega þeim sem æfa mikið eða borða of lítið verður bæling á hormóniun GnRH sem minnkar losun á FSH og LH, þar af leiðandi hætta þær á blæðingum og estrógen styrkur verður lágur. Þyngdaraukning getur gagnast konum í undirþyngd og með ófrjósemi, hún getur aukið tíðni eggloss og þar með líkur á þungun. Í rannsókn á 26 konum með BMI 19,2 og ófrjósemi, fengu konurnar ráðgjöf næringarfræðings og ráðleggingar til þyngdaraukningar. Þær þyngdust að meðaltali um 3,7 kg og 73% þeirra urðu óléttar eftir þessa meðferð. Ekki var neinn samanburðarhópur í þessari rannsókn en hún bendir til þess að þyngdaraukning geti hjálpað konum í undirþyngd að verða óléttar.

 

Þjálfun

Mikil ákefð og langar æfingar geta haft áhrif á frjósemi kvenna. Þess vegna er konum með BMI undir 25 ráðlagt að takmarka erfiðar æfingar við hámark 5 klst á viku, séu þær að reyna að verða barnshafandi. Konur í yfirþyngd virðast hins vegar hafa gagn af hvers kyns þjálfun og þjálfun virðist ekki hafa áhrif á frjósemi karla.

Áfengi

Meðal áfengisneysla (<2 drykkir á dag) hefur líklegast lítil sem engin áhrif á frjósemi, en áfengisneyslu í meira magni er skynsamlegt að forðast þegar reynt er að verða barnshafandi. Mikil áfengisneysla karla hefur einnig slæm áhrif á frjósemi þeirra.

Mataræði

Hjá heilbrigðum einstaklingum eru ekki sterkar vísbendingar um að ákveðið mataræði ýti undir frjósemi. Því gildir að borða hollt og fjölbreytt fæði, ásamt því að taka inn fólínsýru og D-vítamín.

Koffín

Koffín neysla undir 200 mg á dag virðist ekki hafa áhrif á frjósemi.

Streita

Margar áhorfsrannsóknir hafa bent til þess að streita tengist ófrjósemi, hins vegar getur greining og meðferð ófrjósemis verið mjög streituvaldandi. Engar klínískar rannsóknir hafa sýnt fram á með skýrum hætti að það að draga úr streitu fyrir ófrjósemismeðferð auki líkur á þungun.

Umhverfisþættir

Mengandi efni og eiturefni, svo sem þungmálmar, varnarefni og hugsanlega BPA geta haft skaðleg áhrif á frjósemi og meðgöngu.

Sauna böð virðast ekki hafa áhrif á frjósemi, hvorki hjá konum né körlum. Þó að hormónabreytingar verði á meðan á sauna baðinu stendur, eru þær skammvinnar.

Valmynd