Forstig fæðingar

Þegar talað er um forstig fæðingar er átt við tímabilið á undan virku stigi fæðingar þar sem konan hefur samdrætti með verkjum sem geta truflað daglegt líf. Samdrættirnir eru yfirleitt óreglulegir, mislangir og missterkir. Samdrættirnir geta byrjað og varið í einhvern tíma og dottið síðan aftur niður. Þetta stig getur varað mislengi frá nokkrum klukkutímum uppí nokkra daga. Sumar konur finna aldrei fyrir forstigi fæðingar meðan aðrar ganga í gegnum það í hverri fæðingu. Á þessi stigi er legið að byrja að breyta lögun sinni til að undirbúa sig fyrir fæðinguna. Leghálsinn sem er áður en hann byrjar að breytast eins og langt og lokað rör byrjar að mýkjast, styttast og opnast. Barnið byrjar að færast neðar í mjaðmagrindina og koma sér fyrir áður en hin eiginlega fæðing hefst.

Langt forstig fæðingar er mun algengara hjá konum sem eru að fæða barn í fyrsta sinn en hjá þeim sem hafa fætt áður. Margar konur halda að þær séu byrjaðar í fæðingu þegar að forstigið hefst og verða fyrir miklum vonbrigðum þegar að það kemur í ljós að svo sé ekki. Sumar verða jafnvel áhyggjufullar og byrja að örvænta þar sem þær eru með sára verki sem “eru ekki að gera neitt”. Góðu fréttirnar eru þær að það er ekkert óeðlilegt við það að hafa samdrætti með verkjum og þeir gera nánast alltaf eitthvað gagn þó að hlutirnir gangi hægt fyrir sig á þessu stigi fæðingarinnar. Þó forstigið taki langan tíma telst það eðlilegt og það þarf ekki að þýða að fæðingin sjálf taki langan tíma.

Á forstigi fæðingar er mjög mikilvægt að hvíla sig vel, nærast og draga úr áreiti. Flestar konur eru viðkvæmar fyrir truflun úr umhverfinu við upphaf og í fæðingu og því er best að kúra sig niður í dimmri lýsingu með maka eða stuðningsaðila og hafa það notalegt. Gott er að notast við bað, sturtu, heita bakstra og eða nudd. Einnig er mikilvægt að breyta oft um stellingar og reyna að hreyfa mjaðmirnar í hringi, taka léttan dans eða sitja á jógabolta þetta hjálpar barninu að koma sér neðar í grindina og rétta kollinn eða sitjandann af svo að hann beri sem best að. Jafnframt er mikilvægt að reyna að sofna á milli samdráttanna og safna þannig orku fyrir virka stigið sérstaklega ef forstigið byrjar að nóttu til. Einnig er hjálplegt að reyna að hugsa ekki of mikið um hvað klukkan sé og hvað sé framundan heldur reyna að slökkva á þeim hluta heilans sem sér um rökhugsun og fara inná við líkt og í núvitund og jóga. Fæðingarhormónin vinna best í algerri slökun.

Forstig fæðingar getur reynt á bæði konuna og makann eða stuðningsaðilann. Ef forstigið hefur varað lengi og konan er orðin vansvefta er ekki óalgengt að hún þurfi góða verkjastillingu, lyf sem getur slakað á leginu og jafnvel svefntöflu til að hvílast. Verið í sambandi við fæðingardeild eða ljósmóður á meðan forstiginu varir ef þið hafið einhverjar spurningar og ef þið teljið þörf á verkjastillingu með lyfjum. Ekki örvænta virka stigið brestur á fyrr eða síðar og langflestar konur finna vel muninn þegar það gerist.  

2018
Valmynd