Keisaraskurður

Keisarafæðing

Orðið keisari er á latnesku cadere og þýðir að skera (May,K.A. og Mahlmeister, L.R:,1990).
Allt frá árinu 3000 fyrir Krist, hafa keisarafæðingar verið framkvæmdar. Þessar aðgerðir voru framkvæmdar í þeim tilgangi að ná lifandi barni úr líkama látinnar móður. Fyrstur til að gera keisaraskurð þar sem bæði móðir og barn lifðu var Ítalinn Edward Porro árið 1876 (Keane, D.P. 1997).

Á Íslandi er talið að fyrsta keisarafæðingin hafi verið gerð árið 1865, en konan sem var skorin lést þremur dögum eftir aðgerðina en barnið lifði í 6 mánuði. Fyrsta keisarafæðing hér á Íslandi sem vitað er um að bæði móðir og barn hafi lifað, var gerð árið 1910. Til ársins 1939 höfðu aðeins verið framkvæmdar 42 keisarafæðingar hér á landi (Jón Þorgeir Hallgrímsson og Gunnlaugur Snædal, 1988 og 1989). Frá árinu 1939 hafa orðið miklar framfarir í öllum þáttum sem lúta að aðgerðinni sjálfri. Tíðni keisarafæðinga hefur farið hægt vaxandi á Íslandi á undanförnum árum eins og víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum. Hér á Íslandi er hún 19,3 % á árinu 2003 þar af eru 7,4% valkeisarar. Í Brasilíu er hún t.d. um 30% og víða á Vesturlöndum er hún dálítið hærri, eða á bilinu 20% - 25 % (Reynir T. Geirsson , Gestur Pálsson og fl 2000. Duff,E. 2000). Tíðni keisarafæðinga í Bandaríkjunum er, árið 1999 um 22% og hafði aukist aðeins frá árunum áður (Young, D, 2001).

Helstu ástæður þess að keisarafæðing er framkvæmd

 • Fyrirsæt fylgja: Fylgjan liggur yfir leghálsinum og þegar hann opnast þá rofna æðarnar, sem liggja inn í fylgjuna og fer að blæða.
 • Yfirvofandi súrefnisskortur sem veldur því að barnið er í bráðri lífshættu: Orsökin gæti falist í því, að fylgjan starfar ekki eða að hún hefur losnað frá í fæðingu, áður en fæðingin hófst. Hægt er að fylgjast með hjartsláttar tíðni fósturs af rita sem segir til um líðan þess. Þá er hægt að taka blóðprufu á höfði fósturs og sjá mettun súrefnis og meta þannig ástand fóstursins.
 • Framfallinn naflastrengur: Þetta gerist helst þegar kollur barns er ekki skorðaður ofan í grindina og belgir hafa rofnað.
 • Sýking: Konan er með hita og belgir hafa verið rofnir í meira en sólarhring og framgangur í fæðingu er lélegur.
 • Belgir sprengdir of snemma í fæðingu: Rannsóknir benda til aukinnar tíðni keisarafæðinga þegar belgir eru sprengdir of snemma í fæðingu (Segal, D. Sheiner, E. og fl. 1999).
 • Ef ör eru á leginu vegna fyrri keisarafæðinga eða annarra aðgerða: Þá er meiri hætta á að leg rifni upp í fæðingu. Þær konur, sem hafa áður farið í tvo keisara eru í mun meiri hættu (Meeker, M.H, Rothrock, J.C. 1995).
 • Þröng mjaðmagrind hjá móður: Misræmi getur verið milli mjaðmagrindar móður og barns. Barnið of stórt, það situr eða liggur í óvenjulegri stöðu t.d. þversum.
 • Lélegur framgangur fæðingar: Vegna þess, að útvíkkun legháls stoppar. Orsakir þess geta verið, vegna óeðlilegrar stöðu fósturs í legi, höfuð þrýstir ekki á leghálsinn, eða að leg sé þanið og samdrættir óeðlilegir.
 • Konur með slæma meðgöngueitrun: Þar sem blóðþrýstingur er orðinn mjög hár, eggjahvíta í þvagi mikil, og vökvasöfnun. Þetta ástand getur skaðað bæði konu og barn.
 • Fylgjuþurrð: Þá er starfsemi fylgjunnar orðin það léleg að ekki þykir annað öruggt en að barn fæðist með keisarafæðingu.
 • Fylgjulos: Fylgja losnar frá legi að hluta eða öll.
 • Konur sem eru með Herpes vírus: Á kynfærum, vegna hættu á að sýkja barnið, þegar það fara í gegnum fæðingarveginn (May, K.A. og Mahlmeister, L.R:,1990).
 • Stórt barn: Konur sem eru með sykursýki eða meðgöngusykursýki. Börn þeirra eru yfirleitt stór, eða yfir 4000gr. Lenda þær oft í keisarafæðingum vegna ósamræmis á mjaðmagrind móður og stærðar barns. Í rannsókn sem gerð var í Suður Karolínu í Bandaríkjunum á 54.448 fæðandi konum, þar sem hlutfall kvenna með sykursýki reyndist vera 3,6% fóru 51% þeirra í keisarafæðingu (Remsberg, K.E., McKeown, R.E. og fl.1999).
 • Aldur kvenna: Ef konur eru komnar yfir 35 ára, eru taldar auknar líkur á því, að þær fari í keisarafæðingu (Duff, E. 2000).

Undirbúningur fyrir keisarafæðingu

Þegar um valkeisara er að ræða er reynt að gera hann eins nálægt útreiknuðum fæðingardegi og hægt er. Ef fæðingin á að fara fram á Landspítalanum kemur dkonan aginn fyrir aðgerðina á göngudeild Landspítalans við Hringbraut þar sem teknar eru blóðprufur fyrir. Því næst fer konan á Sængurkvennadeild 22-A. Ljósmóðir sýnir henni deildina, myndbækling um keisarafæðingu, hlustar eftir hjartslætti barnsins/ barna og rakar skurðsvæði. Svæfingalæknir kemur og talar við konuna og útskýrir deyfinguna (svæfinguna).

Konan fer heim aftur að þessu loknu , fær með sér „Klyx" til úthreinsunar sem hún notar um morguninn áður en hún kemur til aðgerðar. Hún fastar á mat, drykk og tóbak frá kl. 24.00. Fer í sturtu um kvöldið og aftur um morguninn.

Konan mætir aðgerðardaginn á Sængurkvennadeild. Ljósmóðir frá deildinni fylgir konunni á skurðstofu og er hjá henni meðan hún er deyfð. Þegar búið er að deyfa hlustar ljósmóðir eftir fósturhljóðum og sér síðan um að maki eða annar stuðningsaðili konu komi á skurðstofu. Ljósmóðirin tekur einnig við barninu þegar það er fætt og færir til barnalæknis (María Björnsdóttir, 1999).

Deyfingar eða svæfingar

Helstu deyfingar sem notaðar eru við aðgerðir á neðri hluta kviðarhols og ganglimum eru mænudeyfing (spinal deyfing) og utanbastsdeyfing (epidural deyfing).

Mænudeyfing

Við mænudeyfingu er sjúklingur látinn liggja í fósturstellingu eða sitja í keng. Stungið er mjórri nál í bak sjúklings milli hryggtinda fyrir neðan
L-2 (annar lendarliður) þar til mænuvökvi lekur út. Þá er sprautað staðdeyfilyfjum og/eða ópíötum inn í mænuvökvann. Sjúklingur dofnar á u.þ.b. 5 mín og deyfing endist í 3 – 5 klst.

Utanbastsdeyfing

Þegar utanbastsdeyfing er lögð er legustelling sjúklings sú sama og þegar mænudeyfing er lögð. Stungið er sérstakri nál inn á milli hryggtinda þangað til komið er inn í utanbastsbilið. Þá er þræddur örmjór leggur gegnum nálina og inn í utanbastbilið. Þar er leggurinn skilinn eftir og nálin fjarlægð. Í utanbastslegginn eru síðan gefin deyfingar- og/eða verkjalyf. Utanbastdeyfing er lengur að ná virkni en mænudeyfing eða 20-30 mín. Deyfing er gefin í legginn, annað hvort í sídreypi eða í nokkurrar klst fresti í og eftir aðgerð. Þessari tækni er einnig beitt í tengslum við aðra verkjameðferð t.d. við fæðingar og vegna krabbameinsverkja.

Helstu hliðarverkanir mænudeyfinga og utanbastdeyfinga:

 • Blóðþrýstingsfall
 • Bradycardia
 • Há deyfing = öndunarerfiðleikar.
 • Þvagteppa
 • Mænuhöfuðverkur (Hulda Arnórsdóttir, Jóhanna Kr. Steingrímsdóttir, Margrét Pálsdóttir, 2002).

Ef sú ákvörðun er tekin að framkvæma keisaraskurð sökum þess, að líf móður eða barns er í hættu, þá er fljótlegast að svæfa konuna. Kannanir, sem gerðar hafa verið á konum, sem farið hafa í keisarafæðingu og verið svæfðar, sýna að þær kvarta um minnisleysi bæði fyrir og eftir að keisarinn var gerður. Minnisleysið getur varað í nokkra daga (Hillan, E. 2000).

Aðgerðin sjálf

Áður en aðgerðin er gerð er ákveðinn undirbúningur nauðsynlegur. Það þarf að setja upp þvaglegg hjá konunni og raka skurðsvæðið. Þvo aðgerðarsvæði með sótthreinsandi vökva.

Þegar byrjað var að gera keisaraskurði var aðgerðin framkvæmd þannig: Skorið var á kviðvöðva eftir miðlinu. Nefndist það klassískur skurður, skorið var ofarlega á legið þar sem það er þykkast. Hætta á rifum á öri er meiri á leginu í næstu meðgöngu við þessa tegund keisarafæðingar ( May, K.A. og Mahlmeister, L.R., 1990).

Sá skurður sem oftast er gerður nú á dögum er þverskurður ofan við lífbeinið. Þetta er Pfannenstielskurður sem oft er kallaður bikini- skurður. Hann er u.þ.b. 2 cm fyrir ofan lífbein og er um 6 til 7 cm að lengd ( Keane, D. P.1997). Nokkrar ástæður eru fyrir því að frekar var farið að gera þessa tegund keisaraskurðar. Eru þær taldar upp hér að neðan:

 • Minna blóðtap, þar sem skorið á legið þar sem það er þynnst.
 • Minni hætta á að leg dragi sig illa saman, þar sem skorið er á legið neðarlega þar sem það er þynnst.
 • Minni líkur á að ör á leginu rifni upp í næstu meðgöngu.
 • Minni þensla á kvið eftir bikini- skurði.

Áhættur og fylgikvillar keisarafæðingu

Fylgikvillar sem koma upp eftir keisarafæðingar hafa talsvert verið rannsakaðir og er algengi þeirra á bilinu 9% til 15 %. Helstu fylgikvillarnir eru sýkingar í skurðsári, þvagfærasýkingar og slímhúðarflakk. Hjá konum sem fara í bráðakeisarafæðingu eru sýkingar helstu fylgikvillarnir. Í rannsókn sem gerð var á heilsufari kvenna þremur mánuðum eftir keisarafæðingu, kom fram að 65% höfðu ekki náð fullkomnum bata að þeim tíma liðnum. Helstu vandamál, sem þær kvörtuðu yfir voru: Þreyta, bakeymsli, höfuðverkur, erfiðleikar með svefn og þunglyndi (Hillan E., 2000).

Hildur Árnadóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - maí 2004.

Heimildir

Duff, E. (2000). Rates of caesarean section. Who is sneezing, who is catching the cold? MIDIRS Midwifery Digest 10, 73-74

Hillan, E. (2000). The aftermath of caesarean delivery .MIDIRS Midwifery Digest (10) 1, 70-72.

Hulda Arnórsdóttir, Jóhanna Kr Steingrímsdóttir, Margrét Pálsdóttir.(2002). Kynning fyrir hjúkrunarnema á svæfingardeild Landspítala Hringbraut. Landspítali – háskólasjúkrahús, Hringbraut. Svæfingadeild 12 CD.

Jón Þorgeir Hallgrímsson og Gunnlaugur Snædal. (1988). Keisaraskurðir á Íslandi 1865-1919. Sögulegt yfirlit-I. grein. Læknablaðið, 74, 67-71.

Jón Þorgeir Hallgrímsson og Gunnlaugur Snædal. (1988). Keisaraskurðir á Íslandi 1865-1919. Sögulegt yfirlit-III. grein. Læknablaðið, 75, 95-99.

Keane, D. P. (1997). Operative Procedures. Í Creasy, R.K. (ritstj.). Management of Labor and Delivery. (1.útg.). Massachusetts: Blackwell Science.

María Björnsdóttir ( 1999). Keisaraskurður Landspítalinn Kvennadeild.

May, K.A.,Mahlmeister, L.R: (1990). Comprehensive Maternity Nursing (2. útg. ). Philadelphia: J.B. Lippincott Company.

Meeker, M.H., Rothrock, J.C. (1995). Alexander´s Care of the Patient in Surgery (10útg.). St. Louis: Mosby-Year Book, Inc.

Remsberg, K.E., McKeown, R.E., McFarland, K.F., og Irwin, L.S: (1999). Diabetes in Pregnancy and Cesarean Delivery. Diabetes Care 22,1561-1567.

Reynir T. Geirsson, Gestur Pálsson, Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir. (2000). Skýrsla frá fæðingaskráningunni fyrir árið 1999. Reykjavík. Kvennadeild og Barnaspítali Hringsins Landspítala.

Segal, D., Sheiner,E., Yohai, D. og fl. (1999). Erly amniotomy-highrisk factor for cesarean section. European Journal of Obstetrics and Gynecology and Reprodictove Biology. 86, 145-149.

Sjöfn Eyfjörð (2001). Áætlun fyrir hjúkrunarfræðing í ljósmæðranámi. Skurðdeild Kvennadeildar.

Young, D. (2001). Maternal choice and elective cesareans. Network News. 26, 1-4.

Thomas, S.P. (1995). Psychosocial correlates of women´s health in middle adulthood. Pychosocial Correlates, 16, 285-314.