Tvíburafæðingar

Upphaf

Á fyrri hluta 20. aldar áttu hjón fyrir vestan sex pör af tvíburum og auk þess þrjá einbura. Þau bjuggu í litlu húsi með háalofti og ef konan komst ekki upp á háaloft sökum þykktar sinnar vissi hún að hún gengi með tvíbura, annars einbura. Það fylgir því miður ekki sögunni hvernig henni gekk að fæða, en öll komust börnin til manns, nema ein lítil stúlka sem lést 6 mánaða.

Fyrir flesta foreldra „stendur tíminn í stað" um stund þegar þau fá að vita að von sé á tveimur börnum. Eftir að ómskoðun varð eðlilegur hluti mæðraverndar geta allir væntanlegir tvíburaforeldrar undirbúið sig fyrir meðgönguna, fæðinguna og foreldrahlutverkið með margvíslegum hætti. Fyrir ykkur sem eigið von á tvíburum eru tvíburar eitt af undrum tilverunnar og lífsins - fyrir ykkur sem foreldra, tvíburana sjálfa og nærumhverfið. Þrátt fyrir að tvíburaþungunum hafi fjölgað á síðustu áratugum í kjölfar tæknifrjóvgana og frjósemislyfja, eru tvíburaþunganir einstök lífsreynsla og fágætir töfrar sem tengjast þeirri reynslu. Og líka mikill erill!

Fæðingarmáti

Mikilvægt er fyrir þig/ykkur að undirbúa ykkur sem best og ræða mögulega fæðingarmáta við ljósmóður og lækni í mæðraverndinni og fara yfir kosti og galla. Margt þarf að hafa í huga þegar tekin er ákvörðun um fæðingarmáta. Ef meðgangan hefur gengið vel er það fyrst og fremst staða tvíburanna sem skiptir máli. Ef tvíburi A (sá sem er neðar) er í höfuðstöðu er yfirleitt stefnt að fæðingu um leggöng, en annars er mælt með keisaraskurði. Heilsufar móður sem og fyrri saga og reynsla skiptir auðvitað líka miklu máli.

Áhættufæðingar

Tvíburafæðingar ganga oftast vel en eru skilgreindar sem áhættufæðingar, sérstaklega í tengslum við fæðingu á tvíbura B. Á alheimsvísu eru umræður í fæðingarfræðinni um það hvort öruggara sé að fæða tvíbura eðlilega eða með keisarafæðingu. Fáar stýrðar samanburðarrannsóknir hafa verið gerðar varðandi tvíburafæðingar þannig að upplýsingar um öryggi tvíburafæðinga byggjast fyrst og fremst á staðbundnum gögnum um útkomu og reynsluþekkingu.

Á Íslandi vilja flestar konur reyna eðlilega fæðingu ef þær mögulega geta. Ef tvíburafæðing er sett af stað eru auknar líkur á því að fæðingin endi með keisarafæðingu. Í flestum tilfellum er konum boðin framköllun fæðingar við 38 til 39 vikna meðgöngu, því tíðni fylgikvilla vex með aukinni meðgöngulengd. Sumar rannsóknir benda til þess að í eineggja tvíburaþungunum gæti jafnvel verið skynsamlegt að framkalla fæðingu fyrr.

Fæðingin sjálf

Á fæðingardeildinni er leitast við að skapa jákvætt og rólegt andrúmsloft á stofunni og óskir foreldra virtar eins og hægt er. Ljósmóðir er hjá ykkur allan tímann og fylgist með líðan ykkar allra. Börnin eru í stöðugri síritun og gjarnan er sett elektróða á kollinn hjá tvíbura A þegar belgur hefur rofnað svo öruggt sé að verið sé að hlusta bæði börnin. Reynt er eftir fremsta megni að fæðingarreynslan verði sem jákvæðust og þú getur nýtt þér flest þau verkjameðferðaúrræði sem í boði eru.

Því miður getur þú ekki nýtt þér vatnsmeðferð (bað) í tvíburafæðingum þar sem ekki er mögulegt að vera með bæði börnin í sírita í baðinu. Mælt er með að konur þiggi utanbastsdeyfingu vegna þess að ef grípa þarf inn í fæðinguna við fæðingu á tvíbura B er deyfingin mjög hjálpleg. Ef þú hefur hins vegar ekki áhuga á því, er það ekki skylda og þínar óskir verða virtar.

Þegar líða fer að fæðingunni sjálfri er nokkuð fjölmennt á fæðingarstofunni. Að minnsta kosti tvær ljósmæður, fæðingarlæknir, deildarlæknir, og barnalæknir eru viðstödd fæðinguna. Eftir að tvíburi A er fæddur, mun læknir eða ljósmóðir reyna að tryggja að tvíburi B sé í langlegu með því að halda utan um kvið þinn og stýra barninu þannig niður í grindarinngang.

Stefnt er að því að sem stystur tími líði á milli fæðinga barnanna, sérstaklega ef nokkur vafi leikur á líðan tvíbura B. Ef hjartsláttarrit B er óeðlilegt ákveður fæðingarlæknir hvaða aðgerða er þörf og í langflestum tilvikum er hægt að flýta fæðingu B, annað hvort á fæðingarstofu eða á skurðstofu með viðbúnað fyrir keisarafæðingu.

Eftir að fæðingin er yfirstaðin er fylgst vel með þér á fæðingardeildinni og sérstaklega er fylgst með því að legið dragist vel saman, því aukin hætta er á blæðingu eftir tvíburafæðingu.

Fæðingarstaðir

Hér á landi fæðast tvíburar nær einungis á Landspítala en einstaka fæðing fer fram á Akureyri og Akranesi. Um 50% tvíbura fæðast fyrir 37. viku, flestir í viku 36 til 37. Mikilvægt er fyrir foreldra að hafa í huga líkur á fyrirburafæðingu. Þess vegna gæti verið skynsamlegt að fara fyrr á foreldrafræðslunámskeið, en sérstök námskeið eru í boði fyrir verðandi tvíburaforeldra. Ljósmóðirin þín í mæðraverndinni getur gefið nánari upplýsingar.

Heimferð og brjóstagjöf

Fyrstu dagar, vikur og mánuðir eru yfirleitt mjög krefjandi í lífi tvíburaforeldra. Það er jú þá sem þið lærið að tíminn í sólarhringnum er varla nægur fyrir öll verkefnin sem þarf að sinna; tíðar gjafir (hvort sem um er að ræða brjóstagjafir, pelagjafir eða blandaðar gjafir), lítill svefn þar sem börnin vakna á víxl og svo öll heimilisverkin sem eftir eru.

Tvíburabrjóstagjöf krefst mikillar þolinmæði og getur tekið tíma, sérstaklega fyrstu dagana. Þótt ótrúlegt megi virðast þá er auðvelt fyrir líkama konunnar að framleiða og metta tvö börn. Í þessu gildir sama lögmál og almennt við brjóstagjöf, börnin stjórna framleiðslunni. Sumar konur velja að hafa annað barnið á brjósti í einu en sumar velja að gefa þeim samtímis.

Í byrjun þarft oft mikinn stuðning og tvíburafjölskyldur eiga rétt á lengri vitjunum í heimaþjónustu alls 8 skipti. Tvíburamæður eiga rétt á heimaþjónustu ljósmóður ef þær útskrifast af sjúkrahúsi innan 36 tíma frá eðlilegri fæðingu eða innan 48 tíma frá keisarafæðingu.

Ekki hika við að fá alla þá hjálp sem ykkur býðst frá vinum eða ættingjum - til mismunandi verka. Aukahendi er ekki einungis brýn til að sum þessara verka séu innt af hendi, heldur getur hún gefið þér/ykkur aukið rými til að njóta þess að kynnast börnunum.

Helstu heimildir

Sörensen, J.L., Ottesen, B., Weber, T. (2011) Ars Pariendi - håndgreb og akut behandling ved fødsler. København: Munksgaard Danmark.

Chasen, S.T., Chervenak, F.A. (2012). Twin pregnancy: Labor and delivery. In: Lockwood, C. J. (Ed). UpToDate. Tekið af http://www.uptodate.com/contents/twin-pregnancy-labor-and-delivery