Feður

Líkamlegar og andlegar breytingar

Miklar breytingar eiga sér stað hjá verðandi föður á meðgöngu. Tilhlökkun og spenna er oft mikil en tilfinningar og hugsanir gagnvart þunguninni geta verið mismunandi, skapsveiflur geta komið fram og ábyrgðin sem fylgir litlu barni getur verið yfirþyrmandi. Verðandi faðir hefur oft áhyggjur af praktískum hlutum eins og húsnæði, bíl, vinnu og fjárhag en fæðingarorlof minnkar oftast tekjur heimilisins á sama tíma og útgjöld aukast vegna barnsins. Meiri ábyrgðartilfinning kemur oft fram gaganvart heimilinu, konunni og stækkandi fjölskyldu.

Verðandi faðir getur líka fundið fyrir líkamlegum breytingum eins og þyngdaraukningu, ógleði og meltingartruflunum.

Einmanaleiki getur komið fram þegar öll athygli konunnar beinist að þeim breytingum sem verða á líkama hennar og vill að athygli þín snúist um það líka. Þungunin og barnið er mörgum karlmönnum óraunveruleg þar til þeir heyra fyrst hjartslátt eða sjá barnið í sónar og því getur verið erfitt að vera eins áhugasamur og konan vill fyrstu vikurnar. Kynlíf getur breyst á meðgöngu og ef konan finnur fyrir áhugaleysi getur það aukið enn frekar á einmanaleikann. Önnur atriði sem geta ýmist virkað spennandi eða fráhrindandi eru breytingar á brjóstum konunnar og líkama hennar sem getur orðið til þess að breyting verður á hvar henni finnst gott að láta snerta sig og stækkandi kúla gerir ýmsar stellingar og hreyfingar erfiðari. Sumir karlar finna fyrir minni áhuga á kynlífi á meðgöngutímanum kannski vegna þess að tilhugsunin um að barnið sé þarna líka, er óþægileg eða að breytingarnar sem verða á líkama konunnar, eru truflandi. Gott er að ræða á nærgætinn hátt um líðan sína en mundu að, konan getur verið ósátt við þær breytingar sem eru að verða á líkama hennar og að vita að maðurinn er líka ósáttur við þær, getur verið særandi.

Hlutverk

Eitt helsta hlutverk verðandi föður er stuðningur við konuna sína. Talið saman um þær breytingar sem eru að verða á lífi ykkar, tilfinningar og væntingar. Miklar breytingar eru að gerast í líkama konunnar og geta valið þreytu og jafnvel pirringi. Það getur litið út fyrir að konan þín vilji ekkert með þig hafa en í rauninni þarf hún á því að halda að þú sért til staðar og hjálpir henni í gegnum þetta tímabil.

Á öðrum þriðjungi líður henni betur og fer að líkjast sjálfri sér aftur. Þetta er oft besti tími meðgöngunnar fyrir ykkur bæði svo það er um að gera að njóta hans. Þú getur fundið hreyfingar barnsins og það verður raunverulegra í þínum augum.

Á seinustu vikunum kemur þreytan aftur þegar kúlan er orðin það stór að hún er farin að íþyngja henni og gera henni erfitt fyrir og þá þarf hún aftur meira á stuðningi og hjálp að halda. Svefntruflanir gera vart við sig og kannski áhyggjur af komandi fæðingu.

Vertu þolinmóður, hlustaðu á konuna þína og reyndu að koma til móts við hana. Því betur sem þið getið stutt hvort annað á meðgöngunni því sterkara verður sambandið eftir að barnið er fætt.

Önnur atriði sem sýna stuðning í verki eru t.d.

 • Heimilisstörfin – það er mikið álag á líkamann að ganga með barn og gott að fá stundum frí frá öðru
 • Bera þunga innkaupapoka – þyngsli auka álagið á grindina
 • Elda matinn – sérstaklega fyrstu mánuðina þegar ógleði er mikil. Matur eldaður af öðrum er oft lystugri en þegar konan eldar sjálf
 • Hætta að reykja – styður hana í reykbindindi og óbeinar reykingar móður og barns hætta
 • Fara með í mæðraskoðun / sónar / aðrar rannsóknir – ef eitthvað skyldi nú koma uppá
 • Fara með á foreldranámskeið – skemmtileg upplifun fyrir bæði og undirbúningur fyrir fæðinguna
 • Vera viðstaddur fæðinguna – hjálpa henni í gegnum hana og vera viðstaddur þegar barnið þitt kemur í heiminn

Fæðing barnsins

Flestir verðandi feður vilja vera viðstaddir fæðingu barnsins síns. Sumir geta það ekki eða vilja ekki af einhverjum ástæðum og þá er nauðsynlegt að ræða það fyrirfram og finna lausn sem bæði eru sátt við.

Að vera viðstaddur fæðinguna er ótrúleg reynsla. Það kemur sumum á óvart að konan hagar sér ekki eins og þeir bjuggust við og vill kannski ekki það sem búið var að ákveða að pabbinn ætti að gera í fæðingunni. Mundu að þetta er ekki höfnun heldur er konan líka í óvenjulegum aðstæðum og vissi ekki fyrirfram hvernig viðbrögð hennar yrðu.

Fæðingin er oft tilfinningaþrungin stund og sumir pabbar gráta þegar barnið er komið í heiminn eða þegar þeir halda á því í fyrsta sinn. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af að geta ekki haldið á barninu eða annast það en mörgum finnst barnið svo lítið og brothætt í fyrstu að þeir geti ekki einu sinni tekið það upp.

Eftir fæðingu

Þegar heim er komið eru hlutverk þín aðeins öðruvísi en áður. Nú þarf að:

 • Styðja við brjóstagjöfina – brjóstagöfin er mikil vinna fyrir móðurina sérstaklega fyrstu vikurnar og öll hennar orka fer í hana. Hvatning og hjálp er því vel þegin.
 • Tengjast barninu – pabbi getur tengst barninu á fyrstu vikunum og mánuðunum ekkert síður en mamman.
 • Sinna þörfum barnsins – þá tengist þú barninu best, lærir að þekkja það og barnið lærir að þekkja þig
 • Stjórna heimsóknum – passa að móðirin fái næga hvíld fyrstu vikurnar þegar brjóstagjöfin er að fara af stað og hún þarf að vakna oft á nóttunni. Mikilvægt er fyrir hana að geta lagt sig á daginn þegar barnið sefur. Seinna getur verið að henni finnist hún einangruð, ein heima með barnið allan daginn, og þá getur makinn hjálpað með því að skipuleggja heimsóknir vina og vandamanna.
 • Elda matinn og gera húsverkin – gefa henni aukið svigrúm fyrir brjóstagjöf og hvíld
 • Gefa henni þann tíma sem þarf áður en þið byrjið að stunda kynlíf aftur

Gangi þér vel!

Ljósmæður í Spöng