Fyrstu vikurnar

Einkenni á fyrstu vikum meðgöngu

Frá getnaði að fæðingu, tekst líkami móður á við stórkostlegt ferli frjógvunar, bólfestu eggsins og vaxtar og þroska barns. Líkami móður er „heimili" barnsins næstu 40 vikurnar eða þar um bil. Þessu öllu fylgja oft mikil líkamleg einkenni móður sem geta verið mismunandi á milli meðganga hjá sömu konunni.

Í fyrstu geta þessi einkenni verið mjög óljós og í mörgum tilfellum byrja þau ekki fyrr en um það leyti sem kona uppgötvar að hún sé þunguð. Oft eru þessi einkenni svipuð og konur finna fyrir þegar þær byrja á mánaðarlegum blæðingum.

Hér að neðan er greint frá þessum helstu einkennum sem konur geta fundið fyrir á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar.

Smáblæðingar

Sumar konur fá smáblæðingar og getur það gert konur óöruggar um það hvort þær séu þungaðar eða hvort þetta séu hinar eiginlegu tíðablæðingar. Sumar konur fá svokallaðar hreiðurblæðingar. Þá er um ljóslitaðar blæðingar að ræða sem eiga sér stað þegar fóstrið er að taka sér bólfestu í leginu, venjulega um 10-14 dögum eftir að eggið frjógvast. Þessar blæðingar er venjulega ekki eins miklar né eins langar og tíðablæðingar.

Breytingar á brjóstum

Fljótlega eftir að kona verður þunguð (2-4 vikum) taka brjóst hennar strax breytingum. Mjólkurgangarnir byrja að stækka og þroskast og undirbúa sig fyrir komandi brjóstagjöf. Aukið blóðflæði verður í brjóstunum og oft verða bláæðarnar sýnilegar. Brjóstin verða oft viðkvæm, þrútin og heit og margar konur upplifa kláða/fiðring í brjóstunum. Í kringum 12. viku meðgöngu dökknar húðin á geirvörtunni og vörtubaugnum. Þessi litabreyting er þó mismunandi milli kvenna. Geirvörturnar geta orðið framstæðari en áður á þessum tíma og verið frekar viðkvæmar. Það er mikilvægt að vera í góðum brjóstahaldara sem styðja vel við brjóstin á þessu tímabili.

Aukin þvaglát

Flestar konur finna fyrir auknum þvaglátum á fyrstu vikum meðgöngu. Það er aðallega vegna þess að blóðflæði í nýrum eykst um 35-60%. Þetta aukna blóðflæði eykur þvagframleiðslu nýrnanna um 25%. Í flestum tilvikum eru þessi auknu þvaglát á 9.-16. viku meðgöngu en minnka síðan. Undir lok meðgöngu finna síðan flestar konur aftur fyrir auknum þvaglátum. Það er vegna stækkandi legs konunnar sem þrýstir á þvagblöðruna, hún rúmar þá minna þvag en áður.

Morgunógleði

Þetta einkenni er líklega algengasta einkennið á fyrstu vikum meðgöngunnar. Flestar konur finna fyrir einhverri ógleði, sumar finna bara fyrir smá velgju en aðrar eru undirlagðar af ógleði og uppköstum. Oftast hverfa ógleðin og uppköstin eftir þrjá mánuði en í einstaka tilvikum finna konur fyrir ógleðinni í 4-5 mánuði. Það er ekki alveg vitað hvað veldur ógleði og uppköstum en það er talið vera vegna hormónaáhrifa eða ójafnvægi í blóðsykrinum. Einnig er talið að streita og ofreynsla geti valdið ógleði og uppköstum. Ef kona kastar það mikið upp að hún tapi of miklum vökva, söltum og næringu getur það verið henni og fóstrinu skaðlegt. Í alvarlegum tilfellum getur líkaminn ofþornað. Ef kona heldur engu niðri, getur ekki pissað og verður þurr í munni er ráðlagt að hafa samband við ljósmóður eða lækni. Meðferð við ofþornun er vökvagjöf.

Það sem getur verið hjálplegt við ógleði eða til að koma í veg fyrir ógleði og uppköst eru eftirfarandi atriði:

  • Forðast að verða svöng. Borða oft og í litlum skömmtum, á u.þ.b. 2-3 tíma fresti, jafnvel þó þú sért ekki orðin svöng
  • Drekka mikið af vökva, 10-12 glös á dag af vatni, ávaxtasafa og íþróttadrykkjum (powerade, gatorade)
  • Forðast feitan mat, kryddaðan mat, gos og sælgæti, koffín og sterka lykt. Forðast jafnframt það sem veldur ógleði svo sem að elda eða ganga frá mat.
  • Gott er að borða þurran mat, (þurrt kex, þurrt ristað brauð, tvíbökur), próteinríkan, sætan, saltan eða kaldan mat
  • Hvíld oft á dag er nauðsynleg. Þá er gott að hafa hátt undir höfði og fótum
  • Ef kona þjáist af ógleði á morgnanna er ráðlagt að borða áður en farið er á fætur
  • Fara rólega á fætur, forðast snöggar hreyfingar
  • Sitja upprétt eftir máltíð svo þyngdaraflið hjálpi við að halda matnum niðri
  • Það getur verið gott að borða svolítið áður en farið er að sofa á kvöldin og jafnvel ef kona vaknar á nóttunni til að koma í veg fyrir uppköst næsta morgun
  • Ef einhver lykt veldur konu ógleði og uppköstum skal forðast hana. Það er ráðlagt að bíða í smástund eftir máltíð með að bursta tennurnar svo það komi ekki af stað uppköstum.
  • Hreyfa sig daglega og fá sér frískt loft. Einnig er gott að sofa við opinn glugga

Uppþemba, krampar og bakverkir

Margar konur upplifa uppþembu, milda krampa og verki í mjóbaki rétt fyrir tíðablæðingar. Þegar legið er að stækka geta konur einnig fundið fyrir þessum líkamlegu einkennum. Margar konur verða áhyggjufullar en ef það eru engar blæðingar með verkjunum eru þeir yfirleitt sakalausir og alveg eðlilegir. Ef hins vegar blæðir samfara þessum verkjum ætti alltaf að hafa samband við ljósmóður í heilsugæslu.

Svimi eða yfirliðatilfinning

Svimi snemma á meðgöngu er algengt einkenni. Helstu orksakir:

  • Hormónaáhrif sem slaka á æðaveggjum. Ef kona situr eða liggur út af og stendur síðan hratt upp rennur blóðið hratt í útlimi hennar og getur konan þá fundið fyrir svimatilfinningu. Því er mikilvægt að standa hægt upp til að koma í veg fyrir að blóðið renni hratt frá höfði hennar. Einnig geta konur fundið fyrir svima eða yfirliðatilfinningu ef þær fara í heitt umhverfi, eins og heita potta og gufuböð. Því skal fara skal gætilega í það og vera vakandi fyrir þessum einkennum.
  • Æðaslökun í líkama kvenna á meðgöngu lækkar blóðþrýstinginn. Þannig að þær konur sem hafa lágan blóðþrýsting fyrir meðgöngu finna frekar fyrir svima og yfirliðatilfinningu en þær konur sem hafa hærri þrýsting. Mikilvægt er að passa upp á að borða reglulega til að halda blóðsykrinum í jafnvægi, lágur blóðsykur getur valdið yfirliðatilfinningu.

Þreyta

Margar konur finna fyrir mikilli þreytu á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar og jafnvel aðeins lengur. Líklegasta orsök þreytunnar eru þær miklu hormónabreytingar sem eiga sér stað í líkamanum. Blóðmagn er aukið í líkamanum til þess að flytja næringarefni til fóstursins og miklar efnaskiptabreytingar verða til þess að hjálpa barninu að vaxa og þroskast. Líkamlegar og tilfinningalegar breytingar geta einnig valdið þreytu. Því er mikilvægt að hlusta á líkama sinn og nýta þann tíma sem gefst til að hvíla sig og endurnýja þannig orku sína.

Höfuðverkur

Sumar konur finna fyrir höfuðverk á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar. Eins og með þreytuna er líklegasta orsök höfuðverksins þær hormónabreytingar sem verða í líkama kvenna á meðgöngu. Einnig getur hann orsakast af auknu blóðmagni á meðgöngunni, sem veldur auknu álagi á líkamann. Konur sem eru gjarnar á að fá höfuðverk fyrir meðgöngu eða eru með mígreni geta ýmist fundið sjaldnar eða oftar fyrir höfuðverk á meðgöngu.

Til athugunar: Höfuðverkur eftir 24. viku getur verið vísbending um að blóðþrýstingurinn sé að hækka. Samhliða þessum höfuðverk geta konur fundið fyrir sjóntruflunum. Ef þú upplifir þetta skaltu hafa samband við ljósmóðurina þína.

Hægðatregða

Hægðatregða er algengt vandamál sem konur finna oft fyrir á fyrstu 12 vikum meðgöngu. Hormónaáhrif á meðgöngu slaka á þarmahreyfingum þannig að maturinn fer hægar í gegnum meltingarveginn. Því lengur sem fæða staldrar við í meltingarkerfinu því meiri vökvi frásogast úr fæðunni og hægðirnar verða harðari. Þannig er erfiðara að koma hægðunum frá sér. Því er mikilvægt að auka trefjaneyslu og vökvainntekt til að koma frekar í veg fyrir þetta vandamál.

Kynhvöt

Kynhvöt breytist oft á fyrstu vikum meðgöngunnar. Hún getur ýmist aukist eða minnkað verulega. Sumum konum finnst þær öðlast frelsi á fyrstu vikum meðgöngunnar þar sem þær hafa ekki tíðablæðingar. Aukið blóðflæði er til brjóstanna og kynfæranna, sem getur aukið næmni, kynörvun og kynlöngun. Hins vegar upplifa margar konur mikla þreytu og ógleði á fyrstu 12-14 vikum meðgöngunnar, sem gerir það að verkum að kynlíf kemst ekki í huga þeirra og þær finna ekki fyrir nokkurri löngun.

Uppfært í apríl 2020.

Valmynd