Þvagleki

Þvagleki er töluvert algengt vandamál, sem kemur fyrir konur á öllum aldri, einkum í tengslum við meðgöngu og fæðingu.

Þvagleki gengur sjálfkrafa til baka hjá meiri hluta kvenna á nokkrum vikum eftir fæðingu en getur orðið langvarandi vandamál hjá öðrum. Ekki hefur verið sýnt fram á neina beina orsök en líklegt er talið, að um nokkra samverkandi þætti geti verið að ræða, sem megi rekja beint til meðgöngu og fæðingar.

Margar fæðingar um fæðingarveg ásamt hækkandi aldri móður og áhaldafæðingar (fæðing með aðstoð sogklukku eða tanga), virðast auka líkur á, að konur upplifi þvagleka í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Keisarafæðing virðist að hluta til vera verndandi þáttur, með tilliti til þvagleka, en ekki ef þær eru orðnar þrjár eða fleiri. Þá virðist þvagleki hjá þeim konum vera jafnalgengur og eftir fæðingu um fæðingarveg.

Það verða miklar breytingar á líkama kvenna og starfssemi líffæra á meðgöngu, í og eftir fæðingu, þar á meðal þvagkerfinu. Eru þær breytingar taldar lífeðlisfræðilega eðlilegar og ganga ekki til baka fyrr en nokkru eftir fæðingu.Hætta á þvagfærasýkingu eykst á meðgöngu vegna þeirra breytinga.

Á meðgöngu kvarta yfir flestar konur yfir tíðari þvaglátum að deginum til og meira en helmingur kvenna að næturlagi. Virðist það versna eftir því sem líður á meðgönguna en lagast að einhverju leyti eftir fæðingu. Raunveruleg ástæða tíðari þvagláta á meðgöngu er líklega samspil ýmissa þátta eins og:

  • Aukin vökvainntekt á meðgöngu og aukin þvagframleiðsla.
  • Breyting á hegðunar- og svefnmynstri.
  • Þrýstingur á blöðru frá stækkandi legi.
  • Hlutfallsleg breyting á rúmtaki blöðru. (Cardozo og Gleeson, 1997).

Oft er talað um þrenns konar þvagleka, sem konur finna fyrir á meðgöngu eða eftir fæðingu; áreynsluleka, bráðaleka og blandleka.

Áreynsluleki

Áreynsluleki er langalgengastur á meðgöngu og eftir fæðingu og koma einkenni fram við hósta, hnerra, við að lyfta þungum hlutum, ganga upp stiga, við líkamsrækt, kynlíf og aðra líkamlega áreynslu. Við þannig aðstæður veita grindarbotnsvöðvarnir ekki nægjanlegan stuðning við blöðru og blöðruháls og hringvöðvar í þvagrásinni eru ekki færir um að veita nógu mikið viðnám til þess að halda þvaginu í blöðrunni. Áreynsluleki er oft afleiðing skaða á taugar, liðbönd eða vöðva í grindarbotni vegna barnsfæðinga eða álags á meðgöngu, sem getur leitt til slappra grindarbotnsvöðva. Áreynsluleki er oftast greindur út frá einkennum en það er hægt að greina ástandið með sérstakri læknisskoðun, eða þvagfæra rannsóknum

Bráðaleki

Bráðaleki einkennist af knýjandi þvagþörf og þvagleka, sem kemur fyrir, þegar viðkomandi kemst ekki nógu fljótt á salerni. Bráðaleki verður oft vegna ofvirkrar blöðru eða truflaðra taugaboða til þvagblöðru og ósjálfráðra samdrátta í blöðru.

Hægt er að greina bráðaleka með rannsóknum og meðhöndla með lyfjum auk blöðruþjálfunar og grindarbotnsæfinga.

Konur, með sögu um þvagleka, eiga til að tæma blöðruna eins oft og mögulegt er til að hafa sem minnst þvagmagn í blöðrunni ef ske kynni, að þær misstu þvag. Getur þannig hegðun leitt til minna blöðrurúmmáls og þess, að geta ekki haldið þvagi lengur en í 60-90 mínútur í einu. Þannig ástand getur verið bæði óþægilegt og vandræðalegt og getur komið af stað ferli, þar sem tíminn á milli þvagláta styttist sífellt.

Blandleki

Blandleki er sambland af bæði áreynslu- og bráðaleka. Nákvæmar þvagfærarannsóknir þarf í sumum tilfellum til að greina á milli tegunda þvagleka, svo hægt sé að veita viðeigandi meðferð.

Meðferð og fyrirbygging

Það er hægt að meðhöndla þvagleka og fyrirbyggja að einhverju leyti með einfaldri meðferð eins og grindarbotnsæfingum, blöðruþjálfun og lífsstílsbreyting. Geta ljósmæður veitt handleiðslu um þær meðferðir.

Grindarbotnsæfingar

Grindarbotnsæfingar fela í sér tækni til að styrkja og þjálfa vöðva í grindarbotninum svo að hægt sé að beita meiri þrýstingi á þvagrásina og/eða stuðla að betri samhæfingu þeirra vöðva, sem styðja m.a. við þvagblöðru, þvagrás, leggöng og endaþarm.

Á meðgöngu gæti þjálfun grindarbotnsvöðva hjálpað til við að vinna á móti auknum þrýstingi frá stækkun legs og lækkun á þrýstingi í þvagrás vegna hormónaáhrifa eða of mikils eftirgefanleika vöðva og vöðvafesta í grindinni.

Mörgum konum hefur reynst erfitt að tileinka sér rétta tækni við að gera grindarbotnsæfingarnar og er því nauðsynlegt að fá tilsögn fagfólks við það, strax í upphafi. Ein aðferð, sem gagnast mörgum konum er að nota spegil við að skoða sig með að neðan, til að ganga úr skugga um, hvort æfingarnar eru framkvæmdar á réttan hátt. Önnur aðferð er að þreifa upp í leggöng með tveimur fingrum til að ganga úr skugga um, hvort spenna finnist í leggöngum, þegar æfingarnar eru gerðar. Enn fremur er hægt að finna réttu vöðvana til að æfa, með því að stoppa þvagbununa í eitt skipti við þvaglosun, enda þótt alls ekki sé mælt með því að gera æfingarnar á þann hátt.

Bestur árangur næst með æfingunum, því oftar í einu og af því meiri styrk, sem þær eru gerðar, nokkrum sinnum daglega, í nokkra mánuði. Æskilegt er að byrja að æfa grindarbotnsvöðvana strax á meðgöngunni því, þeim mun styrkari sem vöðvarnir eru á meðgöngu því minna verða þeir útsettir fyrir áverka og því styrkari verða þeir einnig eftir fæðingu. Svo er auðveldara að endurþjálfa vöðva, sem einu sinni hefur verið þjálfaður. Vöðvar, sem eru ekki notaðir, rýrna og rækja ekki sitt hlutverk sem skyldi.

Blöðruþjálfun

Blöðruþjálfun gerir konum kleift að rúma aukið þvagmagn í blöðrunni og lengja tímann á milli þvagláta. Blöðruþjálfun samtímis þjálfun grindarbotnsvöðva er mikilvægur þáttur í sjálfshjálparmeðferð, einkum hjá þeim konum, sem eru með vægan eða meðalvægan þvagleka.

Hreyfing og mataræði

Llífsstílsbreyting og heilsuhvatning er hluti af einfaldri meðferð og má þar benda á mikilvægi hreyfingar og holls mataræðis. Hæfileg þyngdaraukning á meðgöngu, sem stjórnað er með réttu mararæði og skynsamlegri hreyfingu minnkar líkur á þvagleka.

Manneldisráð gaf út bækling árið 2002, "Tekið í taumana; stuðningur og ábendingar fyrir þá, sem vilja grennast", og ætti hann að gagnast konum í þeim tilgangi. Sérstaklega með það í huga, að of þungar konur eru líklegri til að upplifa þvagleka á meðgöngu og eftir fæðingu en konur í kjörþyngd.

Heilsuhvatning felur einnig í sér að forðast reykingar, sem skemma æðakerfið og geta valdið langvinnum hósta og aukaálagi á grindarbotnsvöðvana, hugsanlega einnig skaða.

Hún felur og í sér skynsamlega vatnsdrykkju, þvaglosun ekki oftar en á tveggja tíma fresti, trefjaríkt fæði til að koma í veg fyrir hægðatregðu (aukið álag á grindarbotn við að rembast), forðast alkóhól og drykki, sem innihalda kaffein, nota hóstastillandi lyf, þegar þörf er á, forðast að lyfta of þungu til að minnka óhóflegt álag á grindarbotn og nota jákvæðar staðhæfingar um þvaglekann til að koma í staðinn fyrir neikvæðar hugsanir, sem lúta að lítilsvirðingu sjálfsins.

Sálfélagsleg áhrif

Þvagleki hefur mismikil áhrif á daglegt líf kvenna og andlega líðan. Hjá sumum konum er þvagleki meiri háttar vandamál á meðan aðrar takast á við hann með lítilli fyrirhöfn.

Víða er þvagleki bannorð, sem hvorki má nefna né tala um, sem getur hindrað konur í að leita sér hjálpar og getur valdið þeim miklum áhyggjum, skömm og lágu sjálfsmati. Getur það leitt til til, að þær fela oft þvaglekann fyrir fjölskyldu/maka og vinum og margar konur lifa í stöðugum ótta við að aðrir komist að þvaglekanum.

Þvagleki heftir einnig íþróttaiðkun hluta kvenna og truflar sumar í móðurhlutverkinu því þær geta ekki ærslast eða verið í eltingaleik við börnin sín. Hjá öðrum truflar þvagleki kynlíf vegna hræðslu við að það leki þvag við samfarir og það þarf að losa sig við blaut innlegg eða bindi áður eða konur þurfa að þvo sér að neðan áður, sem getur leitt til minni áhuga og minna frumkvæðis í kynlífi.

Enn aðrar eru kvíðnar og veigra sér við að fara í ferðalög af hræðslu við að vita ekki, hvar næsta salerni er. Getur þessi vanlíðan leitt til þess, að konur einangrist félagslega og treysti sér ekki til að vera í margmenni, sumar af hræðslu við lykt eða að bleyta sjáist í fatnaði.

Þess vegna er mikilvægt fyrir konur, sem verða varar við þvagleka annað hvort á meðgöngu eða eftir fæðingu, að segja frá því og ræða um hann, við sína ljósmóður í mæðraverndinni eða í heimaþjónustunni eða annan heilbrigðisstarfsmann, til að fá upplýsingar og ráðleggingar um meðferð og hvað sé hægt að gera. Ef einfaldar meðferðir koma að litlu gagni er til önnur meðferð, sem ljósmæður geta bent á.

Heimild

Kolbrún Jónsdóttir (2003). Þvagleki á meðgöngu og eftir fæðingu, lokaverkefni í ljósmóðurfræði.

Valmynd