Næring á meðgöngu

Næring á meðgöngu

Mikilvægt er fyrir allar verðandi mæður að nærast vel. Sömu mataræðisleiðbeiningar gilda að mestu fyrir konur sem ganga með tvíbura og aðrar barnshafandi konur. Gott er að hafa í huga að orkuþörf getur verið aukin (ca 300 kkal meiri en í einburameðgöngu) og þær finna gjarnan til aukinnar svengdar. Mikilvægt er að reyna að velja fjölbreytta, næringarríka og holla fæðu og borða reglulega yfir daginn. Oft getur þetta reynst erfitt á fyrstu vikum meðgöngu ef ógleði er mikil en þá er gott að hafa í huga að það getur hjálpað að borða lítið í einu en oft yfir daginn.


Mælt er með að taka fólínsýru 0,8 mg og D vítamín 1000 einingar. Einnig er konum sem ganga með tvíbura ráðlagt að taka inn járn og fjölvítamín. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ef tekið er lýsi samhliða þarf að velja fjölvítamín sem inniheldur ekki A vítamín.


HÉR má finna bækling með nánari leiðbeiningum um mataræði á meðgöngu.

Æskileg þyngdaraukning tvíburamæðra sem stuðlar að eðlilegri fæðingaþyngd tvíbura og minnstum fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu er eftirfarandi:


Líkamsþyngdarstuðull (LÞS, BMI) Þyngdaraukning á meðgöngu

Of grönn (<18,5)   21,5 – 27,5 kg

Í kjörþyngd (18,6-25)    17 – 24,5 kg

Of þung (25,1-30)    16,5 – 20,5 kg

Of feit (>30,1)     13 – 17,5 kg


Gott er að hafa í huga að sumar konur eiga í erfiðu sambandi við þyngd sína og viðkvæmar fyrir þyngdaraukningu. Þetta á sérstaklega við um konur sem eiga sögu um átraskanir. Það getur reynst erfitt að vigta sig í mæðraverndinni. Þá er mikilvægt að ræða það við ljósmóðurina. Oft er hægt að finna lausnir eins og að móðirin vigti sig en sjái ekki töluna sjálf, vigti sig kannski í annað hvert skipti eða annað sem hjálpar. 

Nóvember 2018
Valmynd