Næring

Góð næring er mjög mikilvæg til þess að vinna upp orku og flýta fyrir gróanda. Nýbakaðar mæður eiga það gjarnan til að gleyma sér og borða lítið og sjaldan yfir daginn og því gott að maki eða annar aðstandandi sjái um að útbúa eitthvað fyrir móðurina að narta í. Þá er einnig mikilvægt að hún drekki vel þar sem vökvaþörf er gríðarlega mikil eftir fæðingu. Mæður ættu alltaf að hafa vatn við höndina við brjóstagjöf og passa að svara alltaf þorstatilfinningu. Það er eðlilegt að finna fyrir aukinni svitamyndun fyrstu dagana og margar mæður finna fyrir bjúgmyndun á fótum, frá ökklum og niður á tær. Þetta gerist oft um það leyti sem mjólkin kemur í brjóstin, jafnvel þótt þær hafi ekki fundið fyrir bjúg á meðgöngu. Ef móðir var heilsuhraust á meðgöngu, bjúgurinn kemur jafn á báða fætur og enginn verkur fylgir í fótleggjum er þetta eðlilegt og ætti að renna af á nokkrum dögum. Gott er að gera pumpuæfingar og hreyfa sig svolítið til þess að flýta fyrir. Ef bjúgurinn kemur á annan fótinn, konan finnur fyrir verk í fæti eða var ekki hraust á meðgöngu ætti að leita ráða hjá ljósmóður eða lækni.

Valmynd